149. löggjafarþing — 37. fundur,  23. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[10:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það kom í raun og veru gagnrýni á báða bóga. Þeir sem eru í stórútgerðinni, bolfiskgeiranum, telja að uppsjávargeirinn borgi ekki nægilega hátt veiðigjald miðað við sína afkomu og áhyggjur komu frá uppsjávargeiranum um að með þessu 10% álagi á reiknistofn væri verið að leggja á uppsjávargeirann of há veiðigjöld.

Við fengum sérfræðinga úr ráðuneytinu til að fara yfir þetta og ég er alveg sannfærð um að þetta er ekki nein breyting frá því sem verið hefur með afkomu eða nálgun á veiðigjaldi gagnvart þessum tveimur hlutum, frystitogurum og uppsjávargeiranum. En ég tel mikilvægt og mun fylgja því eftir að þetta verði skoðað miðað við reynsluna og það verði reynt að fá algjörlega á hreint að báðir aðilar borgi miðað við raunverulega afkomu í rauntíma.