149. löggjafarþing — 37. fundur,  23. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[10:59]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þessi vinnubrögð meiri hlutans koma kannski ekki sérstaklega á óvart. Það er búið að keyra þetta mál í gegn á ofurhraða án nokkurs samráðs. Formaður nefndarinnar gat ekki svarað einni einustu spurningu sem til hennar var beint af hálfu minni hlutans. Það er kannski ekki skrýtið að meiri hlutinn hafi ákveðið að fylkja sér í andsvör við formanninn til að lenda ekki í fleiri vandræðalegum uppákomum þar.

En þetta er til marks um eitt: Meiri hlutinn einfaldlega skammast sín fyrir þá skýru forgangsröðun sem kemur fram í þessu máli. Hér erum við að ræða um neyðarreddingar fyrir útgerðina til að lækka veiðigjöldin um 4 milljarða. Það eru eldri borgarar og öryrkjar sem borga reikninginn.