149. löggjafarþing — 37. fundur,  23. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[11:02]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er athyglisvert að fulltrúi hinna nýju stjórnmála, hv. þm. Pawel Bartoszek, standi hér keikur og lýsi yfir að menn geti bara farið í málþóf. Málþóf er illa skilgreinanlegt. Mér finnst eðlilegt að mál af þessari stærðargráðu fái töluverða umræðu hér í þingsal, enda hélt ég að við værum að hefja þá umræðu. Ein ræða er búin, væntanlega ein af töluvert mörgum. Ég hygg að hv. stjórnarandstæðingar fái mýmörg tækifæri í þessari umræðu til að spyrja okkur stjórnarliða út í frumvarpið, til að lýsa yfir sinni skoðun, til að fara yfir sínar breytingartillögur.

Virðulegur forseti. Ég vil mótmæla þeim orðum sem hér voru viðhöfð um að þetta mál hefði verið rifið út með einhverju ofbeldi og ætti að koma mönnum á óvart úr hv. atvinnuveganefnd. Það var rætt um það á fundi forseta með þingflokksformönnum á mánudegi að málið yrði á dagskrá þingsins á þriðjudegi. Þar með átti öllum þingheimi að vera ljóst að ætlunin var (Forseti hringir.) að það yrði á dagskrá í vikunni. Þannig var öllum hv. þingheimi ljóst að málið yrði tekið út. (Gripið fram í: Nei.) Þá hafa þingflokksformenn einfaldlega ekki komið þeim skilaboðum á framfæri.