149. löggjafarþing — 37. fundur,  23. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[11:07]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég verð að segja að ég tel þessar athugasemdir minni hlutans vera þær ólýðræðislegustu athugasemdir sem ég hef heyrt úr þessum ræðustól lengi. (Gripið fram í.) Það að fulltrúar hér á Alþingi vilji fá að spyrja formann atvinnuveganefndar hér í ræðustól Alþingis út í nokkur atriði í máli sem þeir eru að fara að greiða atkvæði um, sem fer svo í gögn Alþingis sem þingskjöl og hluti af málsgögnum — það sé út af því að formaður hv. atvinnuveganefnd sé hræddur. Hvers lags málflutningur er þetta? Ha? Ég skil ekki þessar ólýðræðislegu athugasemdir.

Ég vil benda á að hvorugur þeirra þingmanna sem tilheyra stjórnarmeirihlutanum og spurðu hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur hér út úr er í atvinnuveganefnd. Þau hafa bæði áhuga á þessu máli og hafa ýmsar spurningar áður en þau greiða atkvæði um það. Það er talin vera hræðsla formanns atvinnuveganefndar. Hvers lags dónaskapur er þetta?(Gripið fram í.)