149. löggjafarþing — 37. fundur,  23. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[11:11]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Með nýjum hætti — það er greinilega dálítið nýr háttur á hérna þar sem þingmenn ríkisstjórnarinnar fara í óundirbúnar fyrirspurnir og til viðbótar í andsvör við meirihlutaþingmenn. Ég man ekki eftir að það hafi gerst neitt oft og alla vega ekki í framsögu. Það er ákveðin hlutverkaskipting hérna þar sem minni hlutinn er í eftirlitshlutverkinu frekar en þingmenn meiri hlutans. Við vitum það alveg. Þingmenn eru að sjálfsögðu bara bundnir sinni eigin sannfæringu upp á það að gera og allt í góðu með það. En það er ákveðin hefð sem er verið að brjóta í þessu sem hefur ekki gerst áður eins og bent var á hér áðan.

Aðeins meira úr ríkisstjórnarsáttmálanum:

„Auk þess vilja ríkisstjórnarflokkarnir ýta allnokkrum verkefnum úr vör með þverpólitískri nálgun og tryggja þar betur en venja er að sú fjölþætta þekking og reynsla sem þingið býr yfir nýtist í þágu lands og þjóðar óháð því hvaða flokkar skipa stjórn og stjórnarandstöðu á hverjum tíma.“

Þetta hljómar ekki eins og þetta sé í þessum anda og ég bara verð að koma því að.