149. löggjafarþing — 37. fundur,  23. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[11:39]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans framsögu. Ég deili kannski ekki öllum sjónarmiðum sem þar koma fram en við fengum inn á fund til okkar fulltrúa sveitarfélaga og þeir voru nokkrir. Það var alveg ljóst að rauði þráðurinn var sá að það væru eindregin tilmæli um að veiðigjaldið ætti með einhverjum hætti að renna aftur til byggðanna. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann deili þeirri sýn minni, Viðreisnar og annarra flokka, í því að veiðigjaldið eigi að renna aftur inn á þau svæði þaðan sem sjávarútvegurinn hefur verið að byggjast upp. Við höfum séð ákveðnar afleiðingar þess, nauðsynlegar að vissu leyti, hagkvæmni í veiðum og vinnslu; störfum hefur fækkað en á móti kemur að hugsunin var sú að til framkvæmda komi ákveðinn innviðasjóður. Deilir hv. þingmaður þeirri sýn að gjöldin eigi að fara til uppbyggingar á þeim svæðum sem þau hafa í raun komið frá?