149. löggjafarþing — 37. fundur,  23. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[11:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel það vera gríðarlega mikilvægt mál að við reynum að hugsa veiðigjaldið svipað. Ég fagna því að menn eru ekki að tala gegn því að útgerðin borgi veiðigjald. Í mínum huga er þetta prinsippmál, þetta er aðgangur að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar og það þarf að fara að festa auðlindaákvæði í stjórnarskrá því til viðbótar. En það skiptir máli að reyna að hugsa þetta, eins og ég segi, á svipaðan hátt og olíusjóðinn, nú eða sjóð í Noregi sem tengist fiskeldinu. Þar fer sjóðurinn 80% til baka inn á þau svæði þar sem fiskeldið hefur verið byggt upp. Við eigum að gera þetta. Við eigum að fara í samvinnu við sveitarfélögin. Þau meta það á annan hátt en við sem erum hér á þingi hvað sé nauðsynlegt til uppbyggingar á svæðinu. Sum vilja fara í að efla ferðaþjónustu. Sum vilja fara í að ýta undir nýsköpun og þróun. Við verðum að horfast í augu við að tæknin eykur hagkvæmni og arðbærni sjávarútvegs og framleiðni um leið og við sjáum fram á að störfum fækkar. Sveitarfélögin þurfa því að hafa eitthvert svigrúm til þess að geta farið í aðra uppbyggingu sem þau telja mikilvæga fyrir sitt svæði.