149. löggjafarþing — 37. fundur,  23. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[11:58]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Albertína Friðbjörg Elíasdóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir mjög góða spurningu. Ég er mjög glöð að hann hafi áhyggjur af því að við í Samfylkingunni höfum ekki fjármagnað tillögur okkar. Í fyrsta lagi boðuðum við í breytingartillögum okkar breytingar á skattkerfinu og fjármögnun í gegnum það en jafnframt töluðum við ekki eingöngu um auðlindagjöld af sjávarútvegi heldur horfðum við einnig til annarra auðlinda. Ég er mjög glöð yfir því að hæstv. ráðherra hafi áhyggjur af þessu en ég hef engar áhyggjur. Bæði voru tillögur okkar fullfjármagnaðar og sömuleiðis gerðum við ráð fyrir afgangi. Það er af ýmsu að taka.