149. löggjafarþing — 37. fundur,  23. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[12:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í þær hugmyndir sem eru reifaðar og liggja fyrir í breytingartillögum um að bjóða út hluta aflaheimilda næstu 20 árin. Það kemur ekkert slíkt fram í sjálfu nefndarálitinu en hv. þingmaður hlýtur (Gripið fram í.) að styðja sinn formann í þeim hugmyndum. Þar er ekkert minnst á 5,3% sem fara í dag til félagslegra og byggðalegra aðgerða. Það er ekki minnst á það. Á að henda þeim aðgerðum algjörlega út? Eru byggðasjónarmið þarna undir? Hvar er Samfylkingin stödd í þeim málum?

Nú kynnti ég í atvinnuveganefnd í upphafi þegar við fjölluðum um þetta mál að það væri verið að skoða möguleika á að afkomutengja veiðigjöld með einhverjum hætti eða styrkja frítekjumarkið fyrir litlar og meðalstórar útgerðir. En ég varð aldrei vör við að hv. þingmaður eða þeir sem lögðu fram þessa breytingartillögu kæmu með neinar hugmyndir. Svo talandi um samráð þá hef ég ekki orðið vör við það af þeirra hálfu í atvinnuveganefnd.