149. löggjafarþing — 37. fundur,  23. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[12:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég efast ekki um að hv. þingmaður beri hag byggðanna fyrir brjósti. Þess vegna er maður mjög undrandi á því að svona óvönduð vinnubrögð séu viðhöfð. Það er talað um gagnvart meiri hlutanum að ekkert samráð hafi verið, það sé ógagnsæi og fleiri þurfi að koma til, en síðan er hægt að mæla fyrir algerri gjörbreytingu á fiskveiðistjórnarkerfinu og henda inn í umræðuna á síðustu stundu án nokkurs samráðs við einn eða neinn, ekki minnst orði á það í atvinnuveganefnd að það væri verið að skoða eitt eða neitt varðandi breytingar á þessu máli, koma með á síðustu stundu, óundirbúið, tillögu sem stenst enga skoðun. Í þessari breytingartillögu við málið sem hv. þingmaður leggur fram, Logi Einarsson og fleiri, formenn flokka, Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar, (Forseti hringir.) kemur ekkert fram hvað menn hugsa sér í byggðamálum, ekki neitt. Þetta er skrýtin eftiráskýring hjá hv. þingmanni.