149. löggjafarþing — 37. fundur,  23. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[12:07]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Albertína Friðbjörg Elíasdóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir þessa ágætu fyrirspurn. Ég tek undir það að breytingarnar í frumvarpinu eru sannarlega betri að því leyti til að þetta er fært nær í tíma. Ég hef reyndar mjög mikla trú á embætti ríkisskattstjóra, á því að þau geti unnið gott starf. Þau höfðu samt sem áður spurningar og þau viðurkenndu að ekkert væri öruggt í þessu með milliverðlagninguna. Það var það sem var gagnrýnt aftur og aftur í umsögnum, þessi skortur á gegnsæi. Eins og ég kom inn á í ræðu minni áðan tel ég að ekki sé nóg að gert til að koma til móts við þær athugasemdir. Ég vek þar m.a. aftur athygli á umsögn Samkeppniseftirlitsins sem var raunar samhljóða mjög mörgum umsögnum.