149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

fjárframlög til háskólastigsins.

[15:04]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhuga hans á háskólastiginu og fyrir þá leikfimi sem ég vil kalla það hvernig hann reiknar þetta út. Það vill þannig til að við erum með vinnuhóp í mennta- og menningarmálaráðuneytinu og erum að vinna að þessum tölum og ég er ekki með sömu tölur og hv. þingmaður. Við stefnum að því að ná OECD-meðaltalinu árið 2020. Við erum með tölur sem benda til þess að við séum að nálgast það vegna þess að þessi ríkisstjórn er að leggja í óhemjumiklar fjárfestingar á háskólastiginu, eins og var löngu tímabært.

Hv. þingmaður hlýtur að fagna því að við erum að tala um milljarðaaukningu. Hvernig stendur á því að rektorar þessa lands eru gríðarlega ánægðir með þá aukningu sem á sér stað? Er það virkilega þannig að hv. þingmaður sé í það mikilli pólitík að hann geti ekki einu sinni séð að verið er að vinna gott dagsverk er varðar háskólastigið?

Mér finnst það sem við sjáum mjög jákvætt og skil eiginlega ekki svona pólitík, að menn geti ekki horft fram á þær staðreyndir sem við erum með. Þetta liggur allt fyrir.