149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

fjárframlög til háskólastigsins.

[15:07]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það sem kemur til greina er að stórbæta og auka við háskólastigið. Það er það sem þessi ríkisstjórn hefur verið að gera. Aukningin á milli ára er 5,2% og hún var rúm 5% á síðasta ári þannig að grunnurinn er búinn að hækka verulega. Ég veit að það kann að vera leitt fyrir formann Samfylkingarinnar að þetta sé ekki að gerast á hans vakt. Ég skil það vel. Hins vegar er það svo að vinna þessa hóps gengur bara býsna vel. Ég er að fá þetta í lokadrögum vonandi á allra næstu dögum og ég er svo sannarlega tilbúin til að deila því með þingheimi enda tel ég að þingheimur eigi rétt á þessum upplýsingum. Ég vil leggja áherslu á að það stendur svo sannarlega ekki til að fækka nemendum til að ná þessu markmiði. Það er af og frá.