149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

fasteignaliður í vísitölu.

[15:11]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er reyndar áhugavert, það rann upp fyrir mér þegar ég hlýddi á hv. þingmann, að þetta tiltekna atriði kom ekki mikið til umræðu í þeim umræðum sem við áttum á dögunum um skýrsluna um framtíð íslenskrar peningastefnu. Það er því gott að við höfum tækifæri til að ræða þessa tillögu hér.

Nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að rétt sé að taka fasteignaliðinn út úr vísitölunni, og það má segja að gagnrýni nefndarinnar á þetta byggi á tvíþættum rökum, ef ég kann þetta rétt, annars vegar þau almennu sjónarmið að húsnæði sé langtímafjárfesting sem eigi ekki heima í reglubundnum mælingum á neysluvísitölu sem mæla skammtímaneyslu í samfélaginu, en hins vegar gerir nefndin líka allmiklar athugasemdir við það hvernig útreikningum liðarins er háttað og telur að það sé gert með öðrum hætti hér á landi en annars staðar þar sem húsnæðisliðurinn er inni í neysluvísitölu. Svíþjóð er nefnt sem samanburðardæmi í skýrslu nefndarinnar.

Það sem ég hef gert, eins og kom fram að ég tel í máli mínu hér í umræðum á dögunum, er að ég hef sett af stað starfshóp sem er að vinna úr öllum tillögum nefndarinnar. Annars vegar er verkefnið að semja nýtt lagafrumvarp um Seðlabanka Íslands og taka þar inn þær tillögur sem beinlínis lúta að því. Þessi liður heyrir ekki undir sérstaklega þá vinnu, en er hins vegar sömuleiðis í farvegi hjá þessum starfshópi. Ég vænti þess að niðurstöður hans muni liggja fyrir í febrúar. Þá munum við vera komin með nokkuð heildstæða sýn um hvað verði gert í þessum efnum.

Hv. þingmaður spyr um mína afstöðu. Ég ætla bara að vera heiðarleg með það að ég hef óskað eftir því að fá mótrökin við þessu, því að ég tel rétt að við tökum þá ígrunduðu afstöðu til þess, en mér fannst rök nefndarinnar mikilvæg. Ég tel að þau kalli á það að við gefum þessu ígrundaða skoðun.