149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

eineltismál.

[15:27]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Það er gott að vita. Ég bauð móðir þessa drengs núna í hádegismat í þinginu. Ég geri það oft þegar einhver mál koma upp í samfélaginu. Það er gott að við tölum beint við fólkið sem lendir í erfiðum kringumstæðum. Móðir þess drengs hefur nefnt að skólinn hafi tekið vel á málinu og er að bregðast við en það hefur kannski vantað meiri forvarnir. Einmitt þetta sem ráðherra er að nefna, mig grunar að móðir drengsins verði ánægð að heyra það af því að þegar ég spurði hvað hún myndi vilja sjá nefndi hún m.a. að það þyrfti að vera meiri fræðsla í upphafi skólaárs og að menn gætu leitað eftir meiri fræðslu um það hvernig skuli bregðast við einelti og að foreldrar, allir skólastjórnendur og börnin líka séu upplýst um þessar kringumstæður. En þangað til að við fáum betri stefnumótun, meiri fræðslu og svoleiðis þá erum við með börn sem eru að lenda í þessu núna. Ég er sammála að það eru skólastjórnendur sem verða að stíga inn þarna fyrst.

Bara í lokin, ef skólastjórnendur eru í vandræðum með þetta og sjá kannski ekki úrlausnirnar erum við hæstv. ráðherra Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra ekki í sama liði og sammála um að það þurfi að bregðast strax við? Við þurfum að hlusta og bregðast strax við þeim kringumstæðum sem þarna eru og veita þá aðstoð sem við getum veitt.