149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjöld.

[15:35]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég er að hugsa um að halda áfram að vitna í þessa ágætu grein og niðurlag hennar, með leyfi forseta:

„Það er alls óviðunandi að þjóðin fái einungis smánargjald fyrir afnot af auðlind sinni, nánast ölmusu sem rétt dugar til að greiða þann kostnað sem fylgir því að sjá til þess að auðlindin verði ekki eyðilögð heldur nýtt með hagkvæmum hætti. Við framlagningu frumvarpsins töldu margir þetta atriði þjónkun við hagsmuni útgerðareigenda sem von stæði til að yrði leiðrétt í þinginu. Með framkomnu áliti atvinnuveganefndar er ljóst að hún hefur ekkert lært af sneypuför sinni sl. vor og er slegin þeirri blindu að hlutverk Alþingis sé ekki að gæta almannahags heldur ganga erinda sérhagsmunaafla.“

Herra forseti. Mér er til efs að nokkur stjórnmálaflokkur hafi í 100 ára sögu fullveldisins verið skotinn með jafn sterkum og málefnalegum rökum af eigin sérfræðingi og flokkur hæstv. forsætisráðherra. Telur hæstv. forsætisráðherra ekki tilefni til að snúa af þessari braut (Forseti hringir.) og fresta málinu og hugsa það örlítið betur? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)