149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

staða loðdýrabænda.

[15:39]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Fyrst varðandi loðdýrabændur. — Ef starfandi þingflokksformaður Vinstri grænna hættir að trufla fyrirspyrjandann heyrir fyrirspyrjandi væntanlega það sem ég er að bera fram. — Það liggur ekki nein lausn á borðinu enn þá fyrir loðdýrabændur í þeirri erfiðu stöðu sem þeir glíma við. Nú er málið til umfjöllunar innan Byggðastofnunar og athugað hvort hægt sé að mæta bændum þar í gegn eins og raunar voru hugmyndir uppi um fyrir allnokkru síðan.

Það liggur alveg á borðinu að fjárheimildir innan vébanda landbúnaðarráðuneytisins eða landbúnaðarhluta míns ráðuneytis eru ekki fyrir hendi til að mæta ýtrustu óskum sem m.a. voru kynntar af þessum loðdýrabónda í fréttum í gær. Ef ég man rétt orðaði hann 300 millj. kr. til þessara 18 loðdýrabúa sem fá í rauninni fóður frá tveimur fóðurstöðvum, annarri fyrir norðan og fyrir sunnan. Og það er rétt að umhverfisþátturinn í þessu, sem lýtur að úrgangi sem þarna er nýttur, er vissulega það atriði sem við erum sérstaklega að ræða.

Varðandi sauðfjárbændur, vegna þess að þetta eru tvö stór mál sem ég þarf að ramma inn á tveimur mínútum, þá standa enn þá samningar yfir við sauðfjárbændur. Þeir hafa samkvæmt mínum síðustu upplýsingum gengið bærilega. Það er ekki mikill ágreiningur á milli manna en það tekur greinilega lengri tíma en ég óskaði eftir að færi í það verk að hnýta þá lausu enda sem samningsaðilar, samninganefndir annars vegar ríkisins og hins vegar bænda, eru að glíma við. Ég vænti þess að ég fái í þessari viku frekari fréttir af stöðu mála og bind vonir við að við fáum jákvæða niðurstöðu við endurskoðun sauðfjársamningsins.