149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

staða loðdýrabænda.

[15:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svörin, þokkalega skýr meira að segja. Það er ánægjulegt að heyra að það sé einhver vinna í gangi innan Byggðastofnunar varðandi þetta mál og því er eðlilegt að spyrja ráðherrann í framhaldinu hvort honum sé kunnugt um að niðurstaða fáist á næstu dögum í þeirri vinnu sem er í gangi innan Byggðastofnunar.

Mig langar líka að spyrja ráðherra hvort það megi þá búast við því, hvort sem það er frá hans ráðuneyti eða einhverju öðru, að einhverjir fjármunir komi inn á milli umræðna um fjárlagafrumvarpið, sem verði sérstaklega veittir í ráðstafanir til að laga þessa stöðu sem upp er komin í atvinnugreininni. Hvort sem þeir peningar koma frá ráðherranum, landbúnaðarráðuneytinu eða einhverju öðru ráðuneyti, hefur það væntanlega verið rætt í ríkisstjórn.

Í öðru lagi spyr ég líka hvort gert sé ráð fyrir að einhverjir fjármunir komi inn til sauðfjárbænda núna í fjárlagagerðinni milli umræðna.