149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

staða loðdýrabænda.

[15:42]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Málið er, eins og ég gat um áðan, í vinnslu í ráðherranefnd, hefur verið það um nokkurt skeið og við höfum verið að ræða þar mögulegar lausnir. Ég hef ekki nákvæmar fréttir af stöðu mála hjá Byggðastofnun. Við erum að vinna í því, þrír ráðherrar. Það er ekki komin niðurstaða.

Ég vænti þess að það komi fram tillaga um einhvers lags aðgerðir á milli 2. og 3. umr. fjárlagafrumvarpsins og þeim orðum hefur verið beint til fjárlaganefndar að búast við einhverri tillögugerð í því efni. Hvernig það nákvæmlega endar get ég á þessu stigi alls ekki sagt nokkurn skapaðan hlut til um.

Varðandi það hvort það komi nýir fjármunir inn í sauðfjársamninginn núna milli 2. og 3. umr.: Nei, það er ekki gert ráð fyrir því. Það er gert ráð fyrir því í öllum þessum viðræðum um endurskoðunarákvæðin í sauðfjársamningi eða nautgripasamningi, garðyrkjusamningi, að fjárhagsramminn sem samið var um í búvörusamningunum sem tóku gildi fyrir tæpum tveimur árum sé sá rammi sem viðræðurnar fara fram innan að þessu sinni.