149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

staða íslensku millilandaflugfélaganna og eftirlitshlutverk Samgöngustofu.

[15:48]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er þekkt að erfiðleikar hafa verið í flugrekstri hér á landi sem og annars staðar. Nokkur erlend flugfélög hafa farið í þrot og það er óvissa um stöðu annarra. Íslensku millilandaflugfélögin Icelandair og Wow air eru þjóðhagslega mikilvæg og standa að bróðurparti flugferða til og frá landinu. Það er mikilvægt að flugsamgöngur séu í traustum skorðum því að eins og kom fram hjá málshefjanda er ferðaþjónustan ein helsta stoð hagkerfisins og á hún mikið undir góðum flugsamgöngum.

Væntingar hafa verið um samruna félaganna en málið er auðvitað í höndum þeirra, m.a. er beðið eftir niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins varðandi mögulegan samruna þeirra félaga, Icelandair og Wow air.

Hv. þingmaður sendi mér spurningar upphaflega sem ég ætla að reyna að halda mig við að svara. Hann bætti reyndar nokkru við sem ég get kannski komið inn á í lokasvari mínu.

Varðandi eftirlitshlutverk Samgöngustofu er það margþætt og nær til flestra þátta í starfsemi hennar. Regluverkið og framkvæmd eftirlitsins byggist að mestu á samræmdri evrópskri löggjöf og helstu þættir í því eftirliti lúta að eftirliti með því að flugrekendur uppfylli kröfur sem gerðar eru um öryggi í flugrekstri, þ.e. varðandi viðhald, þjálfun og aðra þætti sem snúa að flugrekstri. Að meginstefinu til hefur Samgöngustofa þvingunarheimildir til að tryggja fullnægjandi viðbrögð við athugasemdum sínum, t.d. með afturköllun eða takmörkun á útgefnum starfsleyfum eða réttindum, rekstrarfyrirmælum og að leggja á dagsektir eða beita öðrum viðurlögum. Fáar atvinnugreinar eru jafn háðar opinberum leyfisveitingum og eftirliti og flugiðnaður

Flugrekstrarleyfi er til að mynda bundið skilyrði um fjárhagslega getu, eignarhald og fleira. Samkvæmt reglugerðinni ber Samgöngustofu að hafa eftirlit með fjárhag íslenskra flugfélaga og felst venjubundið eftirlit í árlegum skilum gagna, svo sem áritaðs ársreiknings og rekstraráætlana. Ef tilefni er til getur Samgöngustofa framkvæmt tíðara eftirlit eða kallað eftir ítarlegri gögnum og er því beitt þegar þörf krefur.

Með sama hætti hefur Samgöngustofa eftirlit með tæknilegum flugrekstri sem fjallar um þau skilyrði sem flugrekandi þarf að uppfylla. Sambærilegar reglur fjalla um kröfur til lofthæfis og viðhalds um viðvarandi lofthæfi loftfara og flugtæknilegra framleiðsluvara, hluta og búnaðar og um samþykki fyrir viðhaldsstöðvum og starfsfólki á þessu sviði. Samgöngustofa sinnir margvíslegu eftirliti á grundvelli þessara reglugerða, svo sem með úttektum o.fl. Ef tilefni er til getur Samgöngustofa framkvæmt tíðara eftirlit eða sett takmarkanir á rekstur, t.d. með því að kyrrsetja vélar eða takmarka rekstrarleyfi.

Í samræmi við alþjóðlegar áherslur er eftirlit Samgöngustofu með flugrekendum áhættumiðað. Það felur í sér að eftirlit stofnunarinnar tekur mið af stöðu eftirlitsskyldra aðila og er aukið þegar þörf er á og dregið úr þegar leyfishafar sýna fram á að rekstur sé traustur og áhætta minni.

Varðandi þær heimildir sem Samgöngustofa hefur til aðgerða ef reksturinn er ekki sjálfbær þá varðar það flugrekstrarleyfið sem gefið er út á grundvelli þessarar reglugerðar, nr. 48/2012, um sameiginlegar reglur flugreksturs og flugþjónustu innan Evrópska efnahagssvæðisins. Flugrekstrarleyfið er bundið ákveðnum skilyrðum, til að mynda um fjárhagslega getu, eignarhald o.fl. Ef afkoma flugrekanda leiðir til þess að fjárhagsleg geta versnar kann það að kalla á ítarlegra eftirlit af hálfu Samgöngustofu. Leiði slíkt eftirlit í ljós nauðsyn til að grípa til aðgerða getur stofnunin afturkallað flugrekstrarleyfið eða gefið út tímabundið flugrekstrarskírteini meðan leyfishafi endurskipuleggur rekstur sinn. Samgöngustofa hefur í eftirliti sínu jafnframt heimild til að rýna með reglubundnum hætti fjárhag félagsins og óska eftir ítarlegum gögnum um stöðu þess.

Einnig var spurt til hvaða aðgerða Samgöngustofa getur gripið ef heimild er til. Svarið við þeirri spurningu er að hægt er að setja nánari skilyrði um gagnaskil, rýni þeirra og takmarkað starfsleyfi eða jafnvel að afturkalla leyfið.

Varðandi spurninguna, sem var þá nr. 4, um aðgerðaáætlun ef upp kæmi sú staða að millilandaflug stöðvaðist eða drægist verulega saman, þá var samráðshópi nokkurra ráðuneyta falið af hálfu ríkisstjórnarinnar að leggja mat á þörf fyrir viðbúnaðaráætlun vegna kerfislega mikilvægra fyrirtækja. Jafnframt var samráðshópnum falið að vinna viðbúnaðaráætlun ef slík þörf væri fyrir hendi. Drög að skýrslu nefndarinnar liggja nú fyrir ásamt viðbúnaðaráætlun vegna flugrekstrar og áhrifa á ferðaþjónustu. Hins vegar liggur fyrir að möguleg niðurstaða í samruna Icelandair og Wow air mun hafa áhrif á niðurstöðu umræddrar skýrslu og þess viðbúnaðar sem þörf er á.

Að lokum spurði hv. þingmaður hvort stjórnvöld hefðu uppi áætlanir um að stíga inn í ef innlent félags stefndi í rekstrarstöðvun vegna fjárhagsvandræða. Líkt og áður hefur komið fram fylgjast stjórnvöld náið með stöðunni á flugmarkaði. Stöðvist rekstur flugfélags, hvort sem um er að ræða erlent eða innlent félag, eru stjórnvöld viðbúin. Ljóst er að flugmarkaðurinn hefur breyst hratt á undanförnum árum og viðbúnaður stjórnvalda hefur tekið mið af því. Stjórnvöld hafa þó ekki uppi áætlanir um að stíga inn í rekstur einstakra flugfélaga eða taka að sér að reka slík félög. Mörg ríki í Evrópu hafa farið í slíkar aðgerðir á undanförnum árum. Í flestum tilvikum hefur slíkt leitt til (Forseti hringir.) mikils kostnaðar fyrir skattgreiðendur án þess að tekist hafi að bjarga þeim félögum.