149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

staða íslensku millilandaflugfélaganna og eftirlitshlutverk Samgöngustofu.

[15:54]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ferðamannaiðnaðurinn hefur stækkað umtalsvert á undanförnum árum. Þessi sístækkandi atvinnugrein er auðvitað mjög jákvæð fyrir okkur því að hún hefur heldur betur aukið hagsæld okkar. En því miður gerist það nú eins og oft áður hefur gerst hér á landi að stjórnvöld eru ekki undirbúin. Þau virðast fljóta sofandi hjá straumi ferðamanna sem iðar um allt land. Þau hafa ekki markað sér neina stefnu þrátt fyrir fögur fyrirheit ríkisstjórnar þess efnis. Þau hafa ekki markað neina leið fyrir íslenska ríkið til varnar íslenskum almenningi sem lendir í því með reglubundnum hætti að horfa á hvernig hagnaður er einkavæddur og, það sem verra er fyrir almenning, tapið er ríkisvætt.

Vitanlega óttast almenningur í dag að svo fari einnig með ferðamannaiðnaðinn sem blásinn hefur verið upp með fordæmalausum hætti.

Ríkisendurskoðun skilaði af sér afar gagnlegri skýrslu fyrir rúmlega ári síðan þar sem fram kom að ábyrgðar- og hlutverkaskipting innan stjórnsýslu ferðamála sé óskýr og ekki að öllu leyti í samræmi við gildandi lög um skipan ferðamála. Finnur Ríkisendurskoðunar að því að stjórnvöld hafi enn ekki sett sér nýja sameiginlega stefnu um málefni ferðaþjónustunnar til framtíðar.

Aðspurð í glænýju svari ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra til þingsins segir að hún hafi starfað eftir ferðamálaáætlun 2011–2020 þó að í ársgamalli skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem áður var komið inn á, komi fram að sú áætlun sé ýmist uppfyllt eða hafi úrelst þar sem aðstæður eru gjörbreyttar og því til lítils gagns. Enn er engin stefna. Ferðamál, þar á meðal stefna er varðar millilandaflug og eftirlit með því, eru í algjörri óvissu og svo virðist, þrátt fyrir váleg tíðindi undanfarnar vikur er varðar rekstur íslenskra flugfélaga, sem engin áætlun sé heldur í gangi nú.

Herra forseti. Það er vægast sagt mikið kæruleysi af hálfu ríkisstjórnarinnar.