149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

staða íslensku millilandaflugfélaganna og eftirlitshlutverk Samgöngustofu.

[15:58]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Þetta er áhugavert. Varðandi upplegg málshefjanda í þessu máli þá eru þetta mikið til einfaldar spurningar sem hefðu kannski betur átt heima í munnlegri fyrirspurn til ráðherra. En í spurningunum felst samt ákveðinn misskilningur sem ég held að þurfi að leiðrétta, þ.e. að þetta sé einhvers konar samkeppnismál sem eigi að lenda inni á borði hjá Samgöngustofu.

Það er bara ekki rétt. Það er Samkeppniseftirlitið sem fer með slík mál. Ef við hættum að horfa á þetta félag sem bara flugfélag og byrjum að horfa á það sem fyrirtæki er alveg ljóst að ef fyrirtæki geta ekki rekið sig fara þau á hausinn.

Markaðurinn ræður klárlega við að bregðast við þegar op myndast vegna gjaldþrots. Það er bara þannig. Það er auðvitað eðlilegt. Og hér komum við inn á stærð þessara flugfélaga, að þegar fyrirtæki eru orðin of stór til að falla, á Samkeppniseftirlitið með einhverjum hætti að undirbyggja að hlutirnir séu með réttum hætti þannig að minni þjóðhagsleg hætta verði af slíku. Ef það hefur ekki nægar heimildir til þess þurfum við að útvega því þær heimildir.

Þannig að ég held að svar hæstv. ráðherra hafi bara verið ágætt. En ég vil frekar tala aðeins um, varðandi flugrekstur á Íslandi, að það er ástæða til að fara að fylgjast betur með eldsneytisnotkun flugvéla. Nú er um 30% munur á eldsneytisnotkun milli tveggja sambærilegra jafn stórra flugvéla sem er í notkun hvor hjá sínu flugfélaginu. Það er nokkuð sem veldur okkur ákveðnum hagsmunaskaða út á við eða álitshnekki.

Og svo eru auðvitað öryggisþættirnir sem búið er að margreifa í þessum þingsal. Þar hugsa ég helst um mikilvægi þess að tryggja með þar til gerðri braut að hægt sé að lenda öllum flugvélum sem eru á leiðinni til landsins á morgnana.