149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

staða íslensku millilandaflugfélaganna og eftirlitshlutverk Samgöngustofu.

[16:03]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Birgi Þórarinssyni, og ráðherra fyrir þessa umræðu. Það er sannarlega tímabært að ræða flugrekstur enda er hann og hvers kyns starfsemi tengd fluginu sannarlega orðinn snar þáttur í íslensku efnahags- og atvinnulífi. Þessi starfsemi öll kallar á mikinn fjölda vel menntaðs og sérhæfðs starfsfólks. Hv. þingmaður gerði að sérstöku umtalsefni eftirlit af hálfu Samgöngustofu með ýmsum þáttum í flugrekstrinum og verð ég að leyfa mér að segja að mér þykja svör ráðherra hafa einkennst af nokkru raunsæi og skynsemi. Það verður ekki séð að það þjóni neinum hagsmunum að opinberir aðilar komi í einhverjum mæli að rekstri félaga, eins og ráðherra gat um. Eins rakti hann takmarkaðan árangur í nágrannalöndunum á liðnum árum af slíkri viðleitni. Við þetta þarf að búa.

Markmið stjórnvalda á hinn bóginn þegar kemur að flugrekstrinum hlýtur fyrst og fremst að vera að tryggja að farið sé að ýtrustu kröfum um öryggi. Vil ég í því efni taka undir með hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni sem býr að sérþekkingu á þessu sviði.