149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

staða íslensku millilandaflugfélaganna og eftirlitshlutverk Samgöngustofu.

[16:08]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir þá umræðu sem hér fer fram. Það er vitanlega mjög mikilvægt að opinberar stofnanir, hvað sem þær heita og hvert sem hlutverk þeirra er, hafi tæki og tól til að sinna sínu eftirliti og að sjálfsögðu líka um leið að sinna þeirri framtíð sem þær eiga að byggja upp og hafa eftirlit með.

Ég held að það sé mikilvægt að taka þessa umræðu. Við getum að sjálfsögðu nálgast málið út frá alls konar sjónarhornum og -hólum. Það sem mig langar að nefna hér er að það er mikilvægt að móta langtímastefnu í flugmálum líkt og Miðflokkurinn ályktaði um á landsþingi sínu í apríl 2018. Við höfum séð mikla uppbyggingu, sérstaklega í Keflavík. Fyrir stuttu fögnuðum við 9.000.000 farþeganum, ef ég man rétt, sem sýnir hversu gríðarlega mikil umferð er um flugvöllinn. Við þurfum að gera meira, við þurfum að tryggja það líka að sá fjöldi véla sem lendir á Íslandi geti lent annars staðar á landinu séu aðstæður þannig. Þar af leiðandi minni ég á tillögu hv. þm. Sigurðar Páls Jónssonar varðandi Alexandersflugvöll.

Það er líka mjög mikilvægt að við horfum ekki bara á farþegaflutninga þegar við tölum um mikilvægi innanlandsflugs því að vöruflutningar eru orðnir stór þáttur í fluginu. Gaman væri í rauninni að vita ef hæstv. ráðherra hefur þær upplýsingar hjá sér hversu stór hluti af millilandafluginu eru vöruflutningar, sér í lagi þegar kemur að ferskum afurðum, sjávarafurðum að sjálfsögðu, sem við vitum að eru fluttar út um allan heim á hverjum einasta degi. Reyndar er það þannig, held ég, hæstv. forseti, að þegar við tölum um öryggismál í flugi að það er líklega einna hættulegast að fara til og frá flugvellinum, þ.e. Reykjanesbrautin er líklega það hættulegasta við að fljúga til og frá Íslandi í dag. Sú braut þarf miklu meira fjármagn. Þar er verið að setja allt of lítinn plástur og í raun er sorglegt að sjá að ekki sé meiri metnaður þegar kemur að því að setja meira fjármagn í það.

Flug og flugmál, flugöryggi er eitthvað sem við eigum að ræða hér reglulega í þinginu og, eins og ég sagði í upphafi míns máls, við eigum að leggjast öll á árarnar við að búa til stefnu til langframa