149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

staða íslensku millilandaflugfélaganna og eftirlitshlutverk Samgöngustofu.

[16:12]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir að vekja athygli á þessu máli en með vaxandi ferðaþjónustu og auknum umsvifum íslensku flugfélaganna er auðvitað ljóst að stjórnvöld þurfa að vera meðvituð um stöðu flugfélaganna og sömuleiðis þau mögulegu áhrif sem gætu orðið ef illa færi. Eðli málsins samkvæmt er íslensk ferðaþjónusta mjög háð góðum flugsamgöngum og með tilliti til þess að ferðaþjónustan er orðin langstærsta atvinnugreinin sem skilar mestu gjaldeyristekjunum er þjóðhagslegt mikilvægi íslensku flugfélaganna augljóst.

Raunar er staðan orðin þannig, eins og komið hefur fram, m.a. á túristi.is, að hvergi annars staðar er vægi innlendra flugfélaga meira en á Íslandi. Við Íslendingar höfum allt of oft verið í þeirri stöðu að ákveðnar atvinnugreinar verða það stórar að þær ógni mögulega stöðugleika í íslensku samfélagi eða, eins og það er kallað, verða of stórar til að falla. Síðasta dæmið um slíkt er okkur öllum enn í fersku minni þegar bankakerfið hrundi og hafði verulegar afleiðingar fyrir okkur öll. Reynslan af því hruni hefur kennt okkur að það er mjög mikilvægt að vera með virkt eftirlit og skýrar heimildir til aðgerða. Stjórnvöld þurfa að teikna upp sviðsmyndir af því sem gæti gerst og gera áætlanir um að koma í veg fyrir að verstu sviðsmyndirnar geti orðið að raunveruleika.

Herra forseti. Staða íslensku flugfélaganna sýnir enn og aftur mikilvægi þess að íslensk stjórnvöld leggi enn meiri áherslu á að stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi þar sem margar ólíkar greinar eru sterkar og mynda fleiri stoðir í stað þess að við séum aftur og aftur háð afkomu einnar greinar. Í því sambandi verð ég að minnast á nýlegar fréttir af nýsköpunarmælikvarðanum Global Innovation Index þar sem Ísland féll (Forseti hringir.) um tíu sæti. Við þurfum að setja mun meiri kraft í nýsköpun, skjóta fleiri stoðum undir íslenskt atvinnulíf, (Forseti hringir.) en kannski þurfum við að skipta um gjaldmiðil svo það heppnist vel.