149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

staða íslensku millilandaflugfélaganna og eftirlitshlutverk Samgöngustofu.

[16:15]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Umræðan er nú komin út í ýmislegt tengt fluginu í þessari seinni ræðu, hún hefur þróast þannig hjá okkur í dag.

Efnahagslegt vægi flugsins og í tengslum við íslenska ferðaþjónustu er gríðarlegt á Íslandi. Flugfélögin flytja um 70–80% af erlendum ferðamönnum til landsins með íslenskur vélum. Um var að ræða yfir 500 milljarða í gjaldeyristekjur í fyrra þar sem ferðaþjónustan sjálf var kannski með sem er 320–322 milljarða innan lands en flugið 180 milljarða. Eins og fram kom áðan hefur flugið í sögulegu samhengi um áratugaskeið verið með um 35–40% af gjaldeyristekjum í ferðaþjónustunni. Flugið hefur alltaf verið með í því dæmi.

Mér þykir mjög ánægjulegt í þessari umræðu hversu margir eru farnir að tala um flugið í stærra samhengi sem tengist varaflugvöllum og kerfinu sem slíku til að tryggja öryggisþætti flugsins og flugöryggið. Ég held að við förum í þá vegferð á næstu misserum að tryggja þá hagsmuni betur og tökum það dýpra á næstunni.

En þessi umræða hefur breyst mikið í þingsal á ekki löngum tíma, á um tveimur árum, og því ber að fagna. Ég get ekki annað en verið sérstaklega ánægður með hvernig hún hefur þróast.

Saga flugs á Íslandi er að verða 100 ára gömul, verður það á næsta ári. Þann 3. september á næsta ári eru 100 ár frá því að fyrsta vélin fór í loftið í Vatnsmýrinni. Það er ótrúleg saga sem við getum verið stolt af og hefur flugið raunverulega verið ein af undirstöðum þessarar þjóðar í uppbyggingu hennar, hvað orðið hefur úr okkur á undanförnum áratugum. Þar hefur flugið (Forseti hringir.) verið í stóru hlutverki.