149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

staða íslensku millilandaflugfélaganna og eftirlitshlutverk Samgöngustofu.

[16:17]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að taka undir með hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni um hvað það er ánægjulegt hversu margir þingmenn hafa orðið áhuga á flugmálunum, og ekki síst hann sjálfur.

Auðvitað eigum við sem eyja að vera með öflugan flugiðnað. Það er hreinlega þannig að hann er okkar helsta tenging dagsdaglega við umheiminn. Auðvitað fara skipin með gámana en fólkið vill fara hraðar yfir. Ef við ætlum að styðja við slíkan iðnað þurfum við í grunninn sterkara hagkerfi. Umræðan núna virðist vera farin yfir í það.

Við þurfum hagkerfi sem ræður við högg af ýmsu tagi en jafnframt hagkerfi þar sem öflug fyrirtæki á borð við Wow air, sem er og var öflugt fyrirtæki með erfiðan rekstrargrundvöll. Við þurfum að búa til góðan rekstrargrundvöll fyrir fyrirtæki sem vilja starfa í þessu landi. Hv. þm. Oddný G. Harðardóttir nefndi gjaldmiðilinn sem þátt í því sambandi. Ég er algjörlega sammála henni.

Auðvitað hefði verið eðlilegra þegar uppgangurinn var að byrja að við tækjum þá afstöðu að láta gjaldmiðilinn ekki styrkjast eins mikið og raun bar vitni og nota frekar innflæði gjaldeyris sem jákvæðan hlut til að fara út í jákvæðar erlendar fjárfestingar, eins og mörg lönd hafa gert í svipuðum aðstæðum og við vorum í, og erum í því, þannig að ekki sé verið að búa til þrýsting á fyrirtæki sem borga í öðrum gjaldmiðlum en þau hafa tekjur í. Þannig gætum við styrkt hagkerfi okkar frekar en að styrkja krónuna.

Það er lykilatriði sem við virðumst einhvern veginn alltaf missa sjónar á þegar við förum að tala um þessa hluti. En eins og ég sagði í fyrri ræðu minni á öll umræða um flugfélögin sem slík og samkeppnisstöðu þeirra (Forseti hringir.) að vera í samhengi við samkeppnismál almennt.