149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

um fundarstjórn.

[16:32]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Hver sá sem les erindi hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar til forsætisnefndar, dagsett 14. nóvember sl., mun sjá að í bréfinu þjófkennir hann 62 þingmenn. (Gripið fram í: Já.)Það segir bókstaflega í bréfinu að ámælisvert sé hvernig ferðakostnaður allra þingmanna, nema náttúrlega hans sjálfs, hafi verið reiknaður út.

Hvað varðar varakröfu hans að stilla sérstaklega upp einum þingmanni þá hefur verið farið yfir þetta mál, ekki bara einu sinni heldur þrisvar af hálfu bæði forsætisnefndar og skrifstofu þingsins. Það eru engin rök, hæstv. forseti, í þeim erindum sem borist hafa forsætisnefnd sem verðskulda að forsætisnefnd taki þetta mál þeim tökum sem beðið er um í bréfinu.

Ég lagði upphaflega til sjálfur — það er best að uppljóstra (Forseti hringir.) um það þótt trúnaður ríki um það sem gerist á forsætisnefndarfundum — að upphaflega erindið yrði endursent þingmanninum með ósk um að hann (Forseti hringir.) bæðist afsökunar á því. Við því var ekki orðið, en það hefði kannski (Forseti hringir.) betur verið gert þannig.

(Forseti (GBr): Forseti biður hv. þingmenn að virða hin knöppu tímamörk.)