149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

um fundarstjórn.

[16:34]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mér er heldur tregt að ræða þetta mál undir liðnum fundarstjórn forseta því að þessi umræða á að fara fram í forsætisnefnd. Samkvæmt lögum og stjórnskipulagi Alþingis fer forsætisnefnd með þetta mál. Það hefur hún gert, lagt í það mikla vinnu og afgreitt það með rökstuddri niðurstöðu upp á sex blaðsíður. Sú niðurstaða kann að vera önnur en sumir hefðu viljað sjá. En um þetta var full samstaða í forsætisnefnd, allra sem þar voru mættir fyrir utan eins manns, þ.e. fulltrúa Pírata í nefndinni sem stóð ekki að afgreiðslu málsins.

Ég hvet menn til þess að lesa hina efnislegu niðurstöðu málsins, (Gripið fram í.) ítarlegan, rækilegan rökstuðning, vel lögfræðilega útfærðan, og þá vinnu sem var lögð í að komast að þessari niðurstöðu þar sem báðum aðilum máls var gefið færi á að koma inn sínum sjónarmiðum, þar sem skrifstofan kom með sínar athugasemdir og lagði reyndar í heilmikla vinnu til að skoða hvort þarna væri eitthvað að finna. Niðurstaðan var alveg skýr: Það voru ekki efni til að hefja rannsókn á meintu siðareglurbroti. Það er skýr og afdráttarlaus niðurstaða og menn eiga að hlíta henni. Hún er í samræmi við það sem til er ætlast (Forseti hringir.) þegar siðareglumál eru reifuð.

Ég mótmæli því að forsætisnefnd sé borin sökum fyrir óvönduð vinnubrögð í málinu. Ég mótmæli því fyrir hönd forsætisnefndar.