149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

um fundarstjórn.

[16:40]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Það sem við erum að lýsa hér er að forsætisnefnd glataði mörgum tækifærum í dag. Hún glataði tækifæri til að virkja siðanefnd, sem hefur aldrei verið virkjuð, og kastaði þannig að rýrð á málsmeðferðina frekar en að styrkja hana með trúverðugum rökum um að rétt hafi verið að málum staðið.

Á sama tíma er þeim hv. þingmanni sem bar fram kvörtunina sem tekin var fyrir í dag hótað afleiðingum gjörða sinna, sem er brot á siðareglum eitt og sér. Því skal haldið til haga.

Tillögu hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar um að fá ráðgjöf, meira að segja bara ráðgjöf, frá siðanefnd, sem er utanaðkomandi aðili, um hvernig væri hægt að standa vel að málsmeðferð erindisins, til þess einmitt að traust geti ríkt um niðurstöðuna, var líka hafnað.

Þetta var meðferð glataðra tækifæra hjá forsætisnefnd. Það er það sem við vekjum athygli á sem og því að ólíðandi er að hóta þingmönnum með afleiðingum gjörða sinna þegar þeir fylgja eigin sannfæringu og senda inn kvörtun (Forseti hringir.) eða ábendingu um mögulegt brot á siðareglum.