149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

um fundarstjórn.

[16:42]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég ætla ekki að koma hingað upp til að segja af eða á um innihald málsins heldur benda á að siðanefnd hefur aldrei komið saman frá því að siðareglur þingmanna voru settar nema til að veita álit sitt þegar kom að því að breyta átti siðareglum í kjölfar #metoo. Mér finnst það í sjálfu sér athyglisvert. Það vekur athygli mína að siðanefnd hafi aldrei verið notuð. Ég held að fullt tilefni sé til þess að leita ráðgjafar hjá þeirri nefnd, sem er að ég held ágætlega skipuð. Ef þetta er ekki tilefni til þess, þegar við erum að fást við eitthvað sem varðar okkur sjálf, okkur öll 63 sem erum hérna inni, þá veit ég ekki alveg hvenær það á að vera.

Ég held að það hefði einmitt verið kjörið tækifæri núna, þó ekki væri nema fyrir þann einstakling sem sat hvað mest undir ásökunum, (Forseti hringir.) að fá algerlega hlutlaust mat á því hvort ásakanirnar voru (Forseti hringir.) tilhæfulausar eða ekki. Það er svo vont að standa eftir með já-bræðurna í kringum sig og hafa ekki fengið (Forseti hringir.) þetta hlutlæga mat. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)