149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

um fundarstjórn.

[16:43]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Mér finnst það þreytandi en pínulítið áhugavert mynstur sem birtist stundum hjá hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins þegar þeir verða agalega hneykslaðir yfir því einhver tali við einhvern eða bendi á hluti. Þeir verða þeir ægilega hneykslaðir yfir því að tiltekið orð hafi verið notað og finnst að það hljóti að grafa undan trúverðugleika þess málflutnings fyrr en síðar.

En mig langar að vekja athygli á orðum virðulegs forseta áðan þegar hann sagði að ekki væri ástæða til að hefja rannsókn á meintu siðareglubroti. Það sagði virðulegur forseti.

Sömuleiðis eru engir 62 þingmenn þjófkenndir í erindi Björns Levís Gunnarssonar. Ég er einn af þeim 62 þingmönnum, óhjákvæmilega, nema hann hafi ekki átt við mig heldur bara alla aðra, og ég sé ekki að ég sé þjófkenndur. (Gripið fram í: Það stendur í bréfinu.)

Það sem stendur eftir er að forsætisnefnd hafnar því að leita til siðanefndar sem var hugsuð til þess að hægt væri að hafa trú á slíku ferli. Af hverju mátti ekki kalla hana saman? Af hverju mátti ekki fá hana í þetta? Af hverju þurfti að henda málinu út öfugu og áður, eins og virðulegur forseti sagði, en rannsókn var einu sinni hafin á því?