149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

um fundarstjórn.

[16:44]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég skal nefna nokkrar staðreyndir í þessu máli, sem er að finna í gögnum málsins. Það er einmitt gott að skoða gögn málsins sem eru á vefsíðu Alþingis. Í þeim kemur fram að á umræddum tíma hafi siðareglur fyrir alþingismenn gert þingmenn ábyrga, með leyfi forseta:

„Þingmenn skulu sjá til þess að endurgreiðsla fyrir útgjöld þeirra sé í fullkomnu samræmi við reglur sem settar eru um slík mál.“

Í sömu reglum um segir, með leyfi forseta:

„Þegar alþingismaður þarf að fara meira en 15.000 km í starfi sínu skal hann fá afnot af bílaleigubíl sem skrifstofa Alþingis leggur til.“

Hv. þm. Ásmundur Friðriksson viðurkennir í Kastljóssviðtali, og það fylgir endurskrift af þeim texta með þeim gögnum sem eru á vef Alþingis og eru opinber öllum, að skrifstofan hafi komið til hans og sagt honum að fara á bílaleigubíl en hann hafi ekki viljað það. Hann heldur því áfram að senda inn ósk um endurgreiðslur sem hann svo fær. Það er klárt brot. Þetta er bara brot (Forseti hringir.) samkvæmt reglunum. Það er öllum landsmönnum ljóst sem vilja skoða það. (Forseti hringir.) Þetta eru gögn málsins. Látum gögn málsins tala sínu máli.