149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

um fundarstjórn.

[16:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Það er sorglegt að við séum í þessari málstofu, eða hvað við eigum að kalla það, að hlusta á þvæluna frá Pírötum varðandi þetta mál allt saman. Það er vitanlega þannig að við erum með ákveðið kerfi á hlutunum á þinginu. Ef Píratar geta ekki sætt sig við það verða þeir að sjálfsögðu að eiga það við sig sjálfa. Menn eru hér með alls konar yfirlýsingar um að menn hafi jafnvel gerst þjófar og eitthvað slíkt, sem enginn fótur er fyrir. Þetta er hreint með ólíkindum.

Forseti Alþingis kom í pontu og benti á að það væru engin rök, það eru engin rök í fullyrðingum hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar um það sem lesa má á netinu og í fjölmiðlum o.s.frv. (Gripið fram í.) Engin rök. Samt þráast menn við.

Forseti minnti líka á að forsætisnefnd sá ekki ástæðu til að rannsaka málið. Svo spyr hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson: Af hverju að henda málinu út áður en rannsókn er hafin? Það var ekki ástæða til að rannsaka málið. Það var niðurstaða forsætisnefndar. Þess vegna er því ekki vísað til siðanefndar. Píratar, líkt og aðrir, verða einhvern tímann (Forseti hringir.) að læra að fara eftir reglum. (Gripið fram í.)