149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:55]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Við skulum hafa það hugfast, kæru vinir, að hér er um að ræða risastórt mál þar sem ekkert samráð hefur verið haft, ekki einu sinni gerð tilraun, ekki einu sinni að síminn hafi verið tekinn upp af hálfu hæstv. sjávarútvegsráðherra til stjórnarandstöðuflokkanna og rætt um það hvernig ætti að haga málinu, hvernig væri hægt að vinna að sátt um þennan grundvallaratvinnuveg þjóðarinnar sem þarf svo á þessari sátt að halda. Ég hef ekki enn misst trú á það, þrátt fyrir allt það havarí sem hefur verið hér. Það er enn þá hægt að ná langþráðri sátt um þetta ef menn bara vilja. Það var ekki gerð tilraun til samtals. Ríkisstjórnin er ekki ársgömul og stjórnarsáttmáli hennar virðist vera kominn eftir þetta tæpa ár bara strax upp á Þjóðminjasafn. Höfum hugfast það sem stendur í stjórnarsáttmálanum uppi á Þjóðminjasafni, þ.e. að allar áætlanir sem eigi að halda til lengri framtíðar þurfi að gera í auknu samráði og með bættum samskiptum. Það þarf að efla samstarf milli flokka á Alþingi, styrkja sjálfstæði þingsins — kannast einhverjir við þetta? — umbúnað þess, faglegan stuðning og stöðu. Þetta var sagt um samráð í stjórnarsáttmálanum og menn og konur eru fljót að gleyma.

Þetta valdi ríkisstjórnin, við skulum hafa hugfast. Ríkisstjórnin valdi það að hafa ekkert samráð. Það var margoft boðið upp á það, m.a. á síðasta ári, að reyna að finna þennan þráð. Hæstv. forsætisráðherra hefur ákveðnar skoðanir á þessu máli og ég vil undirstrika að ég er búin að fara fram á það að hæstv. forsætisráðherra sitji þessa umræðu, annaðhvort í dag eða á morgun, og ef hæstv. forsætisráðherra gerir það ekki verður einfaldlega að fresta málinu af því að það er mikilvægt að fá fram viðhorf og sjónarmið Vinstri grænna í málunum, hvort þau séu algjörlega búin að kúvenda frá fyrri stefnu. Ég bind ekki endilega miklar vonir við að þau komi með einhverja sátt að borðinu, bara að þau útskýri fyrir okkur stefnu forystuflokksins í ríkisstjórn.

Það er rétt sem kom fram, einn skemmtilegast tíminn sem ég upplifði alla vega á síðasta ári, var að vera í mjög erfiðu ráðuneyti, grundvallarráðuneyti fyrir okkur Íslendinga, sögulegu ráðuneyti, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Ég viðurkenni að það getur vel verið að ég sé einfeldningur en ég reyndi að fá alla að borðinu. Ég reyndi að finna leið til að klára þetta mál, vonandi að einhverju leyti í eitt skipti fyrir öll. Punkturinn var einmitt ekki að keyra í gegn með harðfylgi stefnu Viðreisnar, keyra í gegn markaðsleiðina sem við trúum á, af því að við trúum á markaðinn. Við trúum því að markaðurinn sé sá aðili sem er best til þess fallinn að meta auðlindagjaldið, meta raunverulegt markaðsvirði sem á að greiða fyrir aðganginn að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Ég hef meiri trú á markaðnum en ríkisstjórninni sem ákveður með sínum vélabrögðum hvert gjaldið eigi að vera, hver togar fastast og mest í spottana í ríkisstjórninni. Þannig eru vinnubrögðin hér í dag. Ég trúi því að markaðurinn væri betur til þess fallinn en ég var ekki að keyra þá tillögu í gegn, markaðsleið. Hins vegar er núna verið að keyra í gegnum þingið draumatillögu — og Vinstri græn verða líka að horfast í augu við það — Sjálfstæðisflokksins.

Ég taldi mikilvægt að við myndum ná sátt um þessa mikilvægustu atvinnugrein og ég vann hart því. Ég stóð vissulega frammi fyrir alls konar ákvörðunum sem hefði verið mjög freistandi að taka, hvort sem það var í makrílnum eða öðrum sviðum, að stokka upp kerfið, setja á auðlindagjald með þeim hætti sem ég hefði kosið. Þeir hagsmunir Viðreisnar viku fyrir stóru hagsmununum, að vinna að sáttinni. Ríkisstjórnin núverandi velur að hafa ekkert samráð um þessi mál og ég skil vel að forsætisráðherra telji ekkert að gert þegar ráðherrar beita sér fyrir því að setja af stað sáttanefnd allra flokka, meira að segja á sínum tíma beitti ég mér fyrir því að allir flokkar hefðu fulltrúa við borðið. Hvað þýddi það? Meðal annars var forystumaður Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn mjög ósáttur við það að stjórnarandstöðuflokkarnir hefðu í rauninni fjóra fulltrúa á móti þremur ríkisstjórnarflokkanna. En þetta var til þess að reyna að vinna að sátt. Ég skil vel að hæstv. forsætisráðherra telji að við hefðum frekar átt að líta fram hjá sáttinni og fara frekar í samráð, sérstaklega þegar við horfum upp á það hvernig ríkisstjórnin vinnur í þessu mikilvæga máli.

Við finnum það, ágæti þingheimur, að auðvitað veit ríkisstjórnin og forsætisráðherra upp á sig skömmina og við finnum fyrir þeim óþægindum sem ríkisstjórnarflokkarnir standa frammi fyrir því að keyra þetta í gegn. Eitt af því sem þau hafa líka valið við að setja fram þessa forgangsröðun er að í sömu vikunni og þau samþykkja fjárlagafrumvarp, samþykkja að lækka eigin loforð, svo ég gæti allrar sanngirni, til öryrkja og eldri borgara er þetta mál keyrt í gegn, tekið út úr nefndinni. Engin tilraun var gerð til að spyrja hvort við værum með einhverjar aðrar tillögur. Það voru bara þessar tillögur eða ekki, svo keyrt í gegn.

Það er athyglisvert að hugsa um það hvaða viðhorf eru núna hjá forystuflokkunum og forystufólkinu í ríkisstjórn til þessa máls, að reyna að ná sáttum. Það er sem sagt búið að kúvenda. Þess vegna m.a. vil ég að hæstv. forsætisráðherra verði viðstaddur umræðuna, til þess að taka þátt í þessari umræðu. Formaður atvinnuveganefndar kallaði það — það lýsir fjölbreytni og skemmtilegu lífi — blauta drauma okkar í stjórnarandstöðunni að setja fram þessa tillögu, að vilja stuðla að sátt. Það er blautur draumur að vilja stuðla að sátt, að vilja að sameign þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni verði tryggð til lengri tíma. Vinstrihreyfingin – grænt framboð kallar það blauta drauma. Öðruvísi mér áður brá. Mér finnst Vinstrihreyfingin – grænt framboð vera komin ansi langt frá sínum tilgangi þegar hún er byrjuð að tala með þessum hætti.

Gott og vel, við skulum fara yfir málið. Ég hef margoft spurt en engin svör fengið: Af hverju er verið að knýja þetta fram? Það er lækkandi olíuverð, lækkandi gengi, allt atriði sem hafa þýðingu upp á 20 milljarða fyrir útgerðina á síðustu vikum eins og Indriði H. Þorláksson hefur bent á. Af hverju má þá ekki aðeins kæla málið og segja: Finnum þá tóna sem við getum fundið saman? Þess vegna vil ég fara gegn því sem ýmsir hafa notað til að afvegaleiða umræðuna, eins og ég segi þá annaðhvort skilja þeir ekki tillögur okkar í hluta stjórnarandstöðunnar eða segja að það sé verið að afvegaleiða umræðuna. Það er ekki verið að leggja til markaðsleið, það er ekki verið að leggja til uppboðsleið. Því er ýtt til hliðar. Við erum að reyna að benda á það sem allir flokkar, meira að segja ákveðnar raddir innan Sjálfstæðisflokksins, hafa bent á, þ.e. að tryggja tímabundna samninga og koma upp m.a. innviðasjóði.

Frumvarp sjávarútvegsráðherra felur í sér ákveðnar endurbætur á núgildandi löggjöf varðandi tímarammann. Stundum hef ég á tilfinningunni að stjórnarflokkarnir vilji bara halda að málið snúist um það eina atriði að færa fram í tímann. Það snýst ekki um það. Það er einmitt að afvegaleiða umræðuna, að það sé bara verið að færa í tíma. Það er verið að breyta allri gjaldahliðinni og það er opinbert leyndarmál að fyrst var fundið út markmið frumvarpsins um að lækka veiðigjöldin um 3–5 milljarða og síðan var aðferðafræðin fundin út í kringum það og fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna fengnir til að smíða frumvarpið í kringum markmiðið. Það er ekki bara ég sem segi þetta, stuðningsmenn Vinstri grænna setja þetta líka fram m.a. í sínum greinum.

Frá skýrslu auðlindanefndar frá árinu 2000 hefur ítrekað verið staðfest að meiri hluti þjóðarinnar vill að eignarhald þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindum í íslenskri lögsögu sé staðfest og að framsal nýtingarréttar sé tímabundið. Þetta er jafnframt það fyrirkomulag sem við vitum að nágrannalönd hafa notað. Á sama tíma og tímabundinn nýtingarréttur staðfestir eignarhald þjóðarinnar getur tímabinding tryggt meiri stöðugleika og fyrirsjáanleika fyrir útgerðina. Þetta er gríðarlega mikilvægt. Frá sjónarmiði almannahagsmuna eyðir tímabinding þeirri lagalegu óvissu sem ríkt hefur um varanleika réttindanna.

Eins og ég hef margítrekað hef ég raunverulegar áhyggjur af því að réttur þjóðarinnar til eignarhalds á auðlindum verði veikari eftir því sem þetta ótímabundna umhverfi heldur lengur áfram og við erum án auðlindaákvæðis í stjórnarskrá. Það er raunveruleg hætta á því. Þess vegna vil ég undirstrika að gjald fyrir tímabundinn afnotarétt — og ég vona að menn fari að skilja þetta — er forsendan fyrir því að það megi ná fram tveimur mikilvægum markmiðum í löggjöf um þetta efni; að lagareglurnar endurspegli sameign þjóðarinnar og að þær stuðli að sem mestri þjóðhagslegri hagkvæmni veiðanna. Þess vegna tel ég og fleiri flutningsmenn, m.a. af hálfu Samfylkingarinnar og Pírata, nauðsynlegt að kanna samstöðu um þetta grundvallaratriði, atriði sem allir hafa lýst yfir vilja til að ná og var reyndar forsenda af hálfu Vinstri grænna í sáttanefndinni í samráði við mig. Forsenda Vinstri grænna var tímabundnir samningar, enda er það í stefnu þeirra.

Við skulum hafa það líka í huga að á undanförnum tíu árum hefur fyrirkomulagi útreiknings veiðigjalda verið breytt fjórum sinnum með þeirri óvissu og kostnaði sem því fylgir. Jafnframt hefur úthlutunarreglum aflamarkskerfisins verði breytt, t.d. þegar strandveiðum var bætt við veiðarnar og sambærilegt hlutfall tekið af uppsjávarveiðum til jöfnunar. Það hefur sýnt sig, ef fólk er hrætt við samþjöppun og fækkun minni aðila, er það ekki veiðigjaldið sem er helsti orsakavaldurinn heldur miklu frekar aðrir þættir, ég bendi enn og aftur m.a. á grein Indriða H. Þorlákssonar, af því að hún er alveg splunkuný. Veiðigjaldið er bara skjól fyrir því að koma þessu frumvarpi í gegn.

Tímabundnir samningar geta skapað fyrirsjáanleika um réttindi og skyldur. Ég held að það væri einmitt til hagsbóta fyrir útgerðina að vera ekki alltaf á þessu rokkeríi sem er búið að vera á umliðnum árum, fjórum sinnum. Í rauninni eru breytingarnar fleiri á umliðnum tíu árum. Við eigum miklu frekar að fá fram stöðugleika til 20 ára, 25 ára, eins og sumir hafa sagt. Framsóknarmenn nefndu 23 ár og þetta er eitthvað sem ég er sannfærð um að menn geta náð sátt og samkomulagi um.

Það eru líka sterk rök sem falla að því að afkomutengd auðlindagjöld, eins og veiðigjald, renni í sérstakan sjóð fremur en í ríkissjóð. Ef slík gjöld renna í ríkissjóð er hætta á því að þolinmæði stjórnvalda fyrir þeim sveiflum sem jafnan einkenna slík gjöld verði mjög takmörkuð og það verði sú tilhneiging, eins og oft skapast, til að breyta innheimtu gjaldsins þannig að þegar illa árar sé bara dúndrað inn aukaskattheimtu. Slík tilhneiging grefur undan forsendum gjaldsins. Sú staðreynd að aðferðafræði útreiknings og álagningar hefur breyst verulega, eins og ég benti á, sýnir að þetta er vandamál sem við þurfum að hafa í huga. Við verðum að skoða það. Við eigum að vinna gegn þessu og láta gjöldin renna í auðlindasjóð eða í sérstaka sjóði eins og t.d. norski olíusjóðurinn er. Það skiptir máli að byggja upp sérstakan sjóð sem er óháður pólitísku geðþóttavaldi.

Við verðum líka að hafa í huga að hagræðing í sjávarútvegi hefur að jafnaði leitt til fækkunar starfa en heildarafli er náttúrlega takmarkaður. Þannig hefur störfum í sjávarútvegi fækkað með tilheyrandi veikingu á atvinnulífi víða á landsbyggðinni. Í öðru lagi skapar möguleikinn á framsali aflaheimilda óvissu um grundvallarforsendur byggða. Slík óvissa dregur úr hvata til uppbyggingar þjónustugreina á þessum svæðum, t.d. með því að ávöxtunarkröfur á fjárfestingum á veikari svæðum verða hærri. Það þarf að koma til móts við landsbyggðina hvað þetta varðar. Kostnaðurinn hefur í raun fallið óskiptur á þessar sjávarútvegsbyggðir í landinu. Þetta þarf að skoða sérstaklega. Þess vegna er mikilvægt, teljum við, að byggðarlög fái hluta af afrakstri þeirrar hagræðingar sem fiskveiðistjórnarkerfið hefur skapað sem bætur fyrir þann hluta kostnaðar hagræðingar fyrir samfélagið sem þau hafa þurft að bera.

Við erum að segja: Sjóðurinn á að fara í samráði við sveitarfélögin inn á landshlutana sem hafa í rauninni tekið þátt og axla byrðarnar í hagræðingunni í sjávarútvegskerfinu. Við eigum að leyfa svigrúm. Við vitum að það verður ekki fjölgun í störfum í veiðum og vinnslu en störfum getur fjölgað í gegnum afleiddar greinar, í gegnum rannsóknir, í gegnum nýsköpun, í gegnum ferðaþjónustu og með því að færa valdið til sveitarfélaganna, allt eftir því hvað sveitarfélögin kjósa.

Helsta breytingartillaga okkar er sú að við bíðum með þetta í ár. Það er alveg hægt að skoða leið eins og þá sem Indriði H. Þorláksson bendir á, klárum þetta með smærri útgerðirnar en breytum ekki gjaldhlutfallinu og notum síðan tímann til þess að ná samhljómi og gera þetta almennilega. Bíðum með þetta í ár og reynum að vinna að þessari sátt. Að öðru leyti fela þessar breytingartillögur varðandi veiðigjöldin í sér tímabundinn rétt sem skiptir gríðarlega miklu máli og er í samræmi við tillögur auðlindanefndarinnar frá árinu 2000. Þetta er eina leiðin, ég ítreka það, til að tryggja að fiskstofnarnir séu sameign þjóðarinnar.

Ég verð líka að segja, virðulegi forseti, að á sama tíma og verið að knýja þetta mál allt saman í gegn, því er ýtt af stað með miklu afli og einhverri hysteríu, er nokkuð sérstakt að sjá að stór hluti stjórnarflokkanna er að búa til einhvern strámann úr þriðja orkupakkanum. Stór hluti stjórnarflokkanna er að tapa sér yfir meintum fullveldismissi vegna þriðja orkupakkans en á sama tíma er þessum sama hópi, þessum sömu stjórnarflokkum, eiginlega nokk sama um þá raunverulegu ógn sem sameign þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni stafar af því að gera ekkert og að hunsa í enn eitt skiptið að gera tímabundna samninga í samræmi við tillögu auðlindanefndarinnar árið 2000. Nei, hvað er gert með orkupakkann sem allir sérfræðingar, fyrir utan kannski einn og síðan einhverja lobbíista hjá norska Miðflokknum, eru sammála um að engin ógn stafi af? Hvað gerir ríkisstjórnin? Hún frestar málinu. Það þarf að vinna málið betur. Allt í lagi, ég skal bera virðingu fyrir því. En ég hefði haldið að það hefði þurft að vinna þetta mál betur sem raunverulega ógnar sameignarhugtaki þjóðarinnar gagnvart fiskveiðiauðlindinni. Þeim er sama, þetta á að keyra áfram en bíða aðeins með orkupakkann.

Ég vil líka geta þess að í frumvarpi ríkisstjórnarinnar gætir ákveðins tvískinnungs því að í athugasemdunum segir að markmiðið sé að fylgja fram áliti auðlindanefndarinnar frá árinu 2000 um endurgjald fyrir tímabundin afnot, en það kemur hvergi fram í frumvarpinu sjálfu, miklu heldur er verið að mæla fyrir um endurgjald fyrir ótakmarkaðan afnotarétt á auðlindinni eins og verið hefur. Þannig að breytingartillögur okkar, ef við skoðum athugasemdirnar, eru í samræmi við athugasemdirnar. Við erum að hjálpa ríkisstjórnarflokkunum að ná sínu eigin markmiði. Þetta er m.a. ákvæði sem ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra um: Hvað vill hæstv. forsætisráðherra? Vill hæstv. forsætisráðherra ekki hafa takmarkaðan nýtingarrétt á fiskveiðiauðlindinni? Þetta þurfa Vinstri græn að útskýra. Ef þau telja að það séu einhver tímabundinn afnotaréttur núna verður að segja nákvæmlega hver hann er. Ég tel mikilvægara að löggjafarvaldið sjálft segi til um það hver er tímabundinn afnotaréttur af fiskveiðiauðlindinni frekar en að dómstólar skeri úr um það. Það skiptir máli að segja hvað við viljum. Risahagsmunir eru hér undir og ég trúi ekki fyrr en á það reynir að Vinstri græn ætli bara að keyra í gegn veiðigjaldalækkunarfrumvarp Sjálfstæðisflokksins án þess að hafa neina fyrirvara aðra en að það sé verið að auka afsláttinn til smærri útgerða, sem er fínt en það hefði verið hægt að afgreiða það með öðrum hætti.

Það er verið að nota svokallaðan vanda minni útgerða í þessu mál. Og vel að merkja, það er ekki samasemmerki á milli lélegs rekstrar útgerða og að þær séu litlar, alls ekki. Sumar litlar útgerðir eru mjög vel reknar, aðrar ekki. Það er bara eins og gengur. Það er verið að nota vanda tiltekinna útgerða, tiltekinna landsvæða, til að réttlæta lækkun á allt heila klabbið og allt heila klabbið er meira og minna stórútgerðin. Þess vegna leggjum við í minni hlutanum, í þessum þremur flokkum, fram aðrar tillögur. Við vorum mjög meðvituð um það að sumir í okkar baklandi voru ekkert endilega sérstaklega ánægðir með að við værum ekki að koma með agressífa tillögu um markaðsleið, um uppboðsleið. Við sögðum: Nei, við teljum brýnni hagsmuni að ná sátt til lengri tíma litið, anda aðeins rólegar og leggja til hliðar okkar eigin stefnu með það að markmiði að ná sátt um grundvallaratvinnuveg þjóðarinnar. Þar eru nokkur prinsipp sem reynir á, líka í þessu frumvarpi, og það eru tímabundnir samningar. Ef við ætlum að hunsa það að festa í lög núna tækifærið um að veiðigjaldið sé gjald fyrir tímabundin afnot erum við að ógna sameign þjóðarinnar á fiskveiðiauðlind okkar. Þar hefur ríkisstjórnin verið í forystu og ríkisstjórnin er undir forystu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

Þetta verðum við að hafa í huga, hér undir eru risahagsmunir, það er tækifæri til að gera betur. Við í stjórnarandstöðunni, þessir þrír flokkar, (Forseti hringir.) erum að bjóða upp á að málið verði tekið inn í nefnd á milli 2. og 3. umr., reynt að fara yfir það í sátt og finna þennan tón sem er til staðar. Ef við trúum á samráð, ef við trúum á sátt, getum við farið þá leið en ef ríkisstjórnin vill ekki sátt verður hún að bera ábyrgð á þeirri leið.