149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:16]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvernig er með samráðið sem hv. þingmaður og þeir sem flytja þessa breytingartillögu hafa haft við meiri hluta í atvinnuveganefnd um þær grundvallarbreytingar sem á að gera á fiskveiðistjórnarkerfinu í breytingartillögu um veiðigjöld? Hvar eru vönduðu vinnubrögðum þar og samráðið? Það kom ekki ein einasta tillaga eða hugmynd um hvað hv. þingmaður og Viðreisn og þeir flokkar sem standa að tillögunni ætluðu sér með þetta mál í þá tvo mánuði sem það var til umfjöllunar með yfir 100 gestum, 11 fundum og heimsóknum frá 26 aðilum og var búið að mæta öllum óskum um gesti. Það kom ekki ein einasta tillaga og ég spyr: Ætlar hv. þingmaður að setja þá fjármuni sem ekki fara í hafrannsóknir til óskilgreindra sjóða úti um allt land? Hvað með aldraða og öryrkja? (Forseti hringir.) Hvað á ríkissjóður að fá af veiðigjöldum fyrir aldraða og öryrkja sem hv. þingmaður og fleiri hafa skreytt sig með til að bera saman við umræðu um veiðigjöld?