149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:17]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst miður ef hv. þingmaður og formaður atvinnuveganefndar tók ekki þátt í 1. umr. um frumvarpið. Þá kom skýrt fram, mjög skýrt, sjónarmið okkar í Viðreisn og líka annarra stjórnarandstöðuflokka, eins og Samfylkingar og Pírata, að við værum að kalla eftir sátt en ekki síst tímabundnum samningum. Það voru athugasemdir okkar.

Mér finnst leiðinlegt ef hv. þingmaður hefur ekki skilið það, ekki frekar en hv. þingmaður virðist skilja tillögur okkar.

Við skulum líka hafa hugfast að það var vinstri stjórn hér 2009–2013 sem skildi veiðigjöldin frá fiskveiðistjórnarmálum. Það hefur alltaf verið hefð og það hefur verið eðlilegt að fjalla um þau mál saman, auðlindagjald og stjórn fiskveiða. Þetta var af því að vinstri flokkarnir á sínum tíma komu sér ekki saman, Vinstri græn vildu fara aðra leið en Samfylking á þeim tíma. Sú ríkisstjórn er búin. Það er hægt að fjalla um þau mál saman.

Þó ekki væri nema þessi litla breyting í 1. gr. frumvarpsins um að samþykkja að veiðigjald sé gjald fyrir (Forseti hringir.) tímabundin afnot af auðlindinni, það er eitthvað sem ég held að Vinstri græn ættu að hafa hugrekki til að samþykkja því að það er ekki nema sú breyting sem er grundvallarbreyting til að tryggja rétt þjóðarinnar á auðlind hennar.