149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:20]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég þurfi textun á þessu því að það er nákvæmlega þetta: Af hverju er ekki byggðakvóti? Ég skal reyna að tala eins hægt og ég get.

Byggðakvótinn er ekki þarna inni af því að leggjum ekki til grundvallarbreytingar á kerfinu eins og það er núna. Við leggjum til að öll endurúthlutun fari til þeirra sem eru núna með aflaheimildirnar, ekki til nýrra aðila heldur til þeirra sem hafa þær núna. Það er ekki verið að bjóða upp eða gera neitt heldur er það til 20 ára, 5% í senn til þeirra sem hafa aflaheimildirnar núna. Er það flókið? Að sjálfsögðu er það ekki flókið.

Allt annað heldur sér líka. Við eigum ekki einu sinni að leggja fram breytingu á greiðslureglunni eða gjaldareglunni, sem er alveg hörmung. (LRM: … óbreytt kerfi.) — Já, við erum vissulega að tala um óbreytt kerfi [Hlátur í þingsal.] með tímabundnum samningum. Ef menn skilja ekki tímabundna samninga og alvarleika þess að festa ekki tímabundna samninga í lög (Forseti hringir.) er Vinstri grænum ekki viðbjargandi. Við erum að tala um sameign þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni. Ef menn ætla að halda áfram að hafa óbreytt kerfi (Forseti hringir.) er ógn að því að það muni rýra þann rétt okkar til auðlindarinnar og það er það (Forseti hringir.) sem Vinstri græn standa frammi fyrir. (LRM: Tímabundið óbreytt kerfi.)

(Forseti (GBr): Forseti minnir hv. þingmenn á að fara ekki yfir hinn knappa tíma sem er ein mínúta. )