149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:23]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Það skiptir máli að draga fram að breytingartillagan varðandi endurúthlutunina er alveg skýr. Tímabundna endurúthlutunin er til þeirra sem hafa nú þegar aflahlutdeild. Ég vona að menn skilji það.

Það er með öðrum orðum ekki verið að opna á að úthluta nýjum aðilum aflahlutdeild. Við erum að fá fram þetta prinsipp um tímabundna samninga. Það er lykilatriði. Menn verða að skilja að það er lykilatriði. Annars eru þeir sem vilja flagga niðurstöðum auðlindanefndarinnar frá árinu 2000 ekki að gera það með réttu, því að auðlindanefndin sagði: Tímabundnir samningar eru lykilatriði til að tryggja að þjóðin hafi yfirráðarétt yfir fiskveiðiauðlindinni.

Það er aðeins verið að gera aflahlutdeild núverandi handhafa hennar tímabundna. Það er ekki verið að breyta einu eða neinu. Það má gagnrýna okkur fyrir það. Við erum að reyna að fókusera á það sem allir flokkar í gegnum tíðina hafa bent á, að það eigi að tímabinda samningana og síðan fara í uppbyggingar- og innviðasjóð. (Forseti hringir.) Við erum aðeins að draga fram það sem við héldum að hægt væri að ná sátt um, sáttinni sem ríkisstjórnin reyndi ekki að ná en við erum að reyna að ná.

Málið var einfaldlega keyrt síðan út úr nefndinni. Málið var keyrt út úr nefndinni (Gripið fram í.) og það er ekki hægt (Forseti hringir.) að tala um neitt annað en að við séum að reyna að koma með tillögu sem leiði (Forseti hringir.) að sátt um efnisatriði.