149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:26]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Þetta hefur nefnilega grundvallarþýðingu og það er miður ef stjórnarþingmenn skilja ekki þá grundvallarþýðingu.

Ég veit ekki hvort það er málinu eða breytingartillögunni til framdráttar en hún er í rauninni ekki fjarri því sem Framsóknarflokkurinn lagði fram í ríkisstjórninni 2013–2016, (Gripið fram í.) byggir á nákvæmlega sömu hugmyndafræði og formaður Framsóknarflokksins lagði fram á sínum tíma og fulltrúi Framsóknarflokksins setti fram í sáttanefndinni um gjaldtökuna á síðasta ári. (Gripið fram í.) Það var þetta til 23 ára. Við skulum deila um hvort það er til 20 ára, 23 ára, 25 ára en þetta er nákvæmlega sama aðferðafræði og Framsóknarflokkurinn vildi, nákvæmlega sama aðferðafræði og Vinstri græn hafa verið að tala um og einnig aðrir flokkar.

Það er því verið að reyna að fara á nákvæmlega þann stað sem aðrir flokkar hafa verið að tala um.

Það sem er athyglisvert, m.a. hjá hv. þingmanni og líka Vinstrihreyfingunni — grænu framboði, er að þau eru að kokgleypa veiðigjaldalækkunarstefnu Sjálfstæðisflokksins og mér finnst það miður. Það er ekki einu sinni reynt að spyrna við fótum og segja: Komum öllum að borðinu. Reynum að ná sátt um þessa mikilvægu auðlind. (Forseti hringir.) Nei, öllu sem Sjálfstæðisflokkurinn segir í því er kyngt.

Þessar tillögur fela m.a. í sér tillögur sem komu frá Framsóknarflokknum og fleiri flokkum. (LRM: Ekkert frá ykkur?)