149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:33]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og formanni Viðreisnar ræðuna og útskýringar á þeirri breytingartillögu sem hv. þingmaður er flutningsmaður að. Hér á hluti tekna sem stendur undir eftirliti og stjórn fiskveiða að renna í ríkissjóð. Hitt fer í uppbyggingarsjóð landshluta. Þetta eru umtalsverðar fjárhæðir á hverju einasta ári. Kostnaður við eftirlit og stjórn fiskveiða er í kringum 5 milljarða kr. og þá er ekki mikið eftir í ríkissjóð. Út frá ræðu hv. þingmanns og umræðu um 2. umr. um fjárlög er freistandi að spyrja hv. þingmann, hv. formann Viðreisnar: Hvaða skatta mun formaðurinn leggja til að hækka til að mæta augljósum tekjumissi í ríkissjóð?