149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:35]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég er ekki sannfærður. Ég átta mig ekki á því hvernig þeir flokkar sem eru í minni hluta myndu mögulega, ef þeir væru í þeirri stöðu, koma sér saman um þær skattahækkanir sem þyrfti til.

Hér er lagt til að umtalsverðir fjármunir verði veittir úr ríkissjóði til þessara sjóða, eins konar millifærslukerfi, án þess að það sé útfært sérstaklega hvernig það eigi að fara fram. Ég veit að hv. þingmanni er mikið í mun að ríkisfjármál séu í föstum skorðum og farið sé eftir settum reglum.

Í ljósi ræðu hv. þingmanns og umræðu um skort á gagnsæi og samráðsleysi hlýt ég að spyrja hana: Hvernig mun 5% endurúthlutun á hverju ári hafa áhrif á tekjur ríkissjóðs? Ég sé það ekki í breytingartillögunni. Hver verða hagrænu áhrifin af tillögunni?