149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:38]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Frumvarpið sem við ræðum núna er rammpólitískt og hefur verið bitbein umræðu í mjög langan tíma. Það eru hins vegar allir sammála um að það er hvorki gott né hollt fyrir atvinnugreinina sjálfa, eða landsmenn, að þurfa að standa eilíft í því stappi. Umræðan um veiðigjöldin verður hins vegar aldrei slitin úr samhengi við þá umræðu sem hefur átt sér stað síðustu daga og snýst um grundvallarspurningar, um réttmætt tilkall þjóðarinnar til arðs af auðlindum hennar og hvernig takmörkuðum sjóðum ríkisins er síðan skipt milli málaflokka eða einstakra hópa í samfélaginu. Það er ekkert í frumvarpinu sem gerir tilraun til að svara þeirri grundvallarspurningu hvert réttmætt tilkall þjóðarinnar sé til arðs af auðlindinni, tekið er einfaldlega meðaltal af gjaldi frá 2009 og fundið út að það sé í rauninni það sama og er nú lagt til.

Þá ber þess að geta að fyrstu þrjú ár þess tíma var bara málamyndagjald. Það skekkir auðvitað alla myndina. Það skilja allir sem kunna undirstöðu í reikningi. Ríkisstjórnina skortir einfaldlega vilja og jafnvel getu til að takast á við þessa spurningu. Það er enga umræðu að finna um skiptingu rentunnar og það er auðvitað ótækt að þeir sem leggja fram frumvarpið komi sér undan því að ræða meginatriði máls og haldi því jafnvel fram að fiskveiðistjórnarkerfið og veiðigjöld séu ótengd mál. Það er tiltölulega nýbúið að slíta það tvennt í sundur. Þetta er fjarstæðukennt, herra forseti.

Það er ekki síður della að halda því fram að breytingartillögur stjórnarandstöðunnar komi þess vegna málinu ekkert við. Staðreyndin er sú að fyrsta tillaga hluta minni hlutans snýst um frávísun, sem gefur Alþingi og öllum stjórnmálaflokkunum tækifæri til þess að ná breiðari sátt um málið og skynsamlegri niðurstöðu. Fallist stjórnarmeirihlutinn hins vegar ekki á það er ekki um annað að ræða en að setja á dagskrá einstaka þætti sem eru afgerandi fyrir kerfið og a.m.k. tveir af þremur ríkisstjórnarflokkum hafa hingað til barist fyrir þeim hlutum. Þess vegna leggja Samfylkingin, Píratar, Flokkur fólksins og Viðreisn fram tillöguna um að frumvarpinu verði vísað frá og næsta ár notað til að ná víðtækri sátt, kannski pínu í takt við það sem fyrrverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, setti á dagskrá þegar allir flokkar á Alþingi settust niður og ræddu þau mál með það fyrir augum að reyna að ná sátt um þau. Sú ríkisstjórn sprakk reyndar áður en niðurstaða kom í málið. En verði þessi frávísun felld þá leggja þingflokkar Samfylkingar, Viðreisnar og Píratar fram frumvarp með breytingum á mikilvægum þáttum.

Með þeim breytingum er verið að búa útgerðinni öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi, en um leið að gera alveg skýrt hver það er sem á auðlindina. Loks er tillaga um að sveitarfélögum verði gert að bregðast við óvissu og röskun sem fylgt hefur þessari grein í mjög langan tíma og að lokum fæst fram hver á þá auðlind í raun og veru. Þess vegna leggjum við til að tímabundnum leyfum verði skipt upp í 20 tímabundna samninga frá 1 og upp í 20 ár og þannig gefst stjórnvöldum tækifæri á hverju ári til að velta fyrir sér fyrirkomulagi þessara 5% á hverjum tíma, því að um leið og tímabundnir samningar eru mikilvægir væri auðvitað galið að festa allan pakkann til 20 eða 25 ára áður en við höfum náð grundvallarniðurstöðu, samhljómi um það hvernig þetta kerfi á að vera til framtíðar. Ég tel líklegast að núverandi ríkisstjórn myndi endurúthluta því til langs tíma og það verður að vera svo, en við þurfum hins vegar að hafa tækifæri til að koma að málinu.

Ég tek það fram að hér er ekkert verið að leggja til uppboð þó að flokkarnir sem standa að tillögunni aðhyllist mismunandi útgáfur af markaðsleiðum, enda er það eina leiðin sem getur mögulega gefið rétt verð á auðlindina. Við gerum okkur grein fyrir því að í augnablikinu er ekki meiri hluti fyrir því en við teljum okkur hins vegar eiga heimtingu á því að koma að umræðu um fyrirkomulag fiskveiðistjórnar til langs tíma, ekki síst með tilvísun í sjálfan stjórnarsáttmálann, en í honum segir m.a., með leyfi forseta:

„Allar áætlanir sem eiga að halda til lengri framtíðar þarf að gera í auknu samráði og með bættum samskiptum. Efla þarf samstarf milli flokka á Alþingi, styrkja sjálfstæði þingsins, umbúnað þess, faglegan stuðning og stöðu.“

Og síðar:

„Óvenjulegar aðstæður kalla á breytt vinnubrögð, opnari stjórnsýslu, gagnsæi og virðingu gagnvart verkefnum. Það er vilji flokkanna sem nú taka þátt í samstarfi um ríkisstjórn og eflingu Alþingis að nálgast verkefnin með nýjum hætti í þágu alls almennings í landinu, ekki síst með því að styrkja Alþingi með markvissum hætti og auka áhrif þess.“

Þegar ég las þetta fyrst grunaði mig reyndar að þarna væru Vinstri græn að skipuleggja flótta sinn frá boðuðum hugmyndum í skattamálum, til að auðvelda þeim að kyngja stefnu Sjálfstæðisflokksins næstu fjögur árin. Komið hefur á daginn að hæstv. forsætisráðherra hefur í viðtölum hörfað undan eigin tillögum, m.a. um hátekjuskatt. Ég bjóst hins vegar ekki við því að flokkurinn myndi gera slíkt hið sama um öll önnur risaágreiningsmál í samfélaginu, að þau ættu líka að vera á forsendum Sjálfstæðisflokksins.

Hæstv. forsætisráðherra og þingmenn Vinstri grænna verða þó að gangast við því að fiskveiðistjórnarkerfið og gjaldtaka greinarinnar er einmitt mál sem skiptar skoðanir hafa verið um og ætti þess vegna að auka samráðið. Ef út í það er farið hafa Vinstri græn verið talsvert samstiga t.d. Samfylkingunni um ákveðna þætti sem þyrfti að laga, eða svo gripið sé niður í stefnu Vinstri grænna á heimasíðu flokksins, með leyfi forseta:

„Endurúthlutun felst annars vegar í tímabundinni ráðstöfun leyfa og skal að hluta vera bundin útgerðarformum og veiðiaðferðum, og hins vegar í uppboði, að hluta bundin svæðum landsins og sveitarfélögum og þeim aðilum boðið að skilgreina leiðir til úthlutunar.“

Ég hef í rauninni fulla trú á að hæstv. forsætisráðherra meini það sem stendur í stjórnarsáttmálanum um eflingu Alþingis og mikilvægi þess að leiða stór mál til lykta í sem mestum samhljómi. Ég þykist raunar þekkja hennar eigin fingraför á þeim hluta stjórnarsáttmálans. Þess vegna hlýtur hún, og a.m.k. sá flokkur og líklega Framsóknarflokkurinn einnig, að fallast á að best sé að fresta samþykkt þessa frumvarps og samþykkja frávísun til þess að við getum náð betri samhljómi, (Gripið fram í: Heyr, heyr.) bæði meðal flokka á þingi en ekki síður til að bjóða upp á eitthvað sem er meira í takt við vilja almennings, vilja þjóðarinnar. Stórum hluta hennar misbýður í þeim málum. Með fallandi gengi krónunnar og lækkandi olíuverði er ég ekki viss um að þetta eina ár muni sliga útgerðina.

En hefur slík sátt verið reynd á kjörtímabilinu, frú forseti? Nei, aldeilis ekki. Fáir eru væntanlega búnir að gleyma makalausri tilraun til að troða í gegn afturvirkri lækkun veiðigjalda síðasta vor, þar sem hæstv. sjávarútvegsráðherra þorði reyndar ekki að leggja málið fyrir sjálfur heldur beitti meiri hluta atvinnuveganefndar fyrir sig. Hann ber þó málið fram núna og batnandi manni er best að lifa, en um hvernig málið hefur komið fram er aðeins fjallað í áliti 2. minni hluta, með leyfi forseta:

„Annar minni hluti gagnrýnir að ekki hefur gefist tími til að vinna frumvarpið nægjanlega vel, eins og kemur reyndar fram í texta frumvarpsins um að ekki hafi gefist tími við undirbúning frumvarpsins að kanna aðra kosti nægjanlega vel. Sömuleiðis er stór galli að ekki hafi heldur gefist tími til að fara í gegnum samráðsferli það sem ríkisstjórnin hefur komið á í gegnum svokallaða samráðsgátt. Er það sérstaklega bagalegt með tilliti til þess hversu margar alvarlegar athugasemdir komu fram í umsögnum um málið til nefndarinnar. Eins hafði ríkisstjórnin ekkert samráð við gerð frumvarpsins við stjórnarandstöðu og sýndi enga viðleitni til að ná sátt um þessa grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar sem þarf á stöðugleika að halda eins og allt íslenskt samfélag.“

Svo mörg voru þau orð.

Núverandi fyrirkomulag veiðigjalda hefur verið umdeilt. Annars vegar eru margir sem telja gjaldið of hátt og íþyngjandi, sérstaklega fyrir litlar og meðalstórar útgerðir. En ég leyfi mér að spyrja: Íþyngjandi fyrir hvern? Minni gjaldtaka á einu sviði leiðir einfaldlega til þess að minna svigrúm verður fyrir ríkið til að leggja í útgjöld á öðrum sviðum, kannski útgjöld þar sem skórinn kreppir meira heldur en hjá útgerðarmönnum landsins.

Það er einfaldlega ekki hægt, svo að ég nefni það aftur, að ræða einstaka veigamikla tekju- og útgjaldaliði og slíta úr fullkomnu samhengi við heildarfjárlög. Það sker í augun á sama tíma og ríkisstjórnin, sá meiri hluti sem hún styðst við, grípur til niðurskurðar milli umræða fjárlaga til viðkvæmra hópa eins og öryrkja, hafi áform um að taka til sín minni tekjur af sameiginlegri auðlind okkar. Um slíkt getur aldrei orðið sátt í þinginu.

Það er hins vegar alveg rétt að að hluta til hefur innheimtukerfið verið gallað og byggt á gömlum gögnum og ekki endurspeglað rekstrarumhverfi hvers tíma sem getur verið æðimisjafnt, ekki síst með gjaldmiðil sem sveiflast eins og okkar. Það er í sjálfu sér framfaraskref að breyta gjaldtökunni þannig að hún endurspegli betur aðstæður hverju sinni. Um það hafa reyndar allir flokkar verið sammála.

Hvað varðar umræður um íþyngjandi gjaldtöku er rétt að vara við því að gjaldtaka á jafn stórri og mikilvægri atvinnugrein þar sem valdir aðilar fá að veiða úr takmarkaðri auðlind þjóðarinnar byggist á lægsta rekstrarsamnefnara. Greinin er mjög stór og afkoma fyrirtækja mjög misjöfn. Sum berjast í bökkum og eiga eflaust í erfiðleikum með að greiða það gjald sem er í dag á meðan flest reka sig afar vel og raka til sín talsverðum hagnaði, eins og dæmin sanna. Bara á síðasta ári greiddu útgerðarmenn sér 23 milljarða í arð. Til að setja það í samhengi er það tvöföld sú upphæð sem kostar að afnema krónu á móti krónu skerðingu öryrkja, sem flestir stjórnmálamenn virðast í dag sammála um að sé mikið réttlætismál en margir segja að sé of dýrt til að það geti gerst á næstu árum.

Því hefur líka verið haldið fram í þessari umræðu að útgerðarfyrirtækin sem verið hafa í vandræðum séu litlu og meðalstóru fyrirtækin. Ég held að eitthvað geti verið til í því en ég held líka að það sé mikil einföldun. Það er ekki endilega fylgni milli smæðar fyrirtækis og hversu vel eða illa það er rekið. Þótt nauðsynlegt sé að almenn rekstrarskilyrði þessarar atvinnugreinar, eins og raunar allra atvinnugreina, sé góð er ekki hægt að byggja allt kerfið á því að öll fyrirtæki geti ævinlega rekið sig. Þannig fyrirkomulag er ekki í neinni annarri grein á Íslandi, frú forseti.

Hins vegar skal viðurkennast að það eru ekki síst félagslegir, samfélagslegir þættir fiskveiða okkar sem hafa verið vandamálið og því þarf örugglega að ná saman um aðgerðir til að tryggja byggðalega mikilvæg fyrirtæki.

Það er þó hæpið að tala um að veiðarnar séu sjálfbærar, eins og mælt er fyrir í fiskveiðistjórnarlögum, þrátt fyrir að hæstv. forsætisráðherra hafi í óundirbúnum fyrirspurnum í morgun talaði um það. Hugtakið sjálfbærni byggir nefnilega á jafnvægi þriggja jafn veigamikilla þátta, hinum umhverfislega, hinum efnahagslega og hinum samfélagslega. Með samþykkt kvótakerfisins var lagður grunnur að veiðistjórn sem var í sátt við umhverfið og í tímans rás hafa verið gerðar margar breytingar sem hafa styrkt efnahagslegu stoðina, en erfiðast hefur gengið að þróa veiðarnar í sátt við samfélag okkar. Við hljótum öll að muna eftir fjölmörgum dæmum um heilu byggðir sem lenda í uppnámi vegna ákvarðana sem eru teknar af einu útgerðarfyrirtæki eða fáum mönnum.

Þess vegna er nauðsynlegt að leita leiða til að styðja útgerðir sem eru af menningarlegum eða byggðalegum ástæðum mikilvægar til að halda jafnvægi í byggð. Við getum samt ómögulega fallist á að miða gjaldtöku við verst stæðu fyrirtækin. Ég held að það sé raunar vandalítið að verja litlar og meðalstórar útgerðir án þess að það leiði til þess að allur hagnaður velti yfir á stórútgerðirnar sem eru, eins og dæmin sanna, ekki illa staddar.

Ein leiðin til að tryggja að tryggja þetta er að arðurinn af auðlindinni renni til byggðanna sjálfra. Þá geta þær eftir atvikum tekið ákvörðun um hvernig er best að styrkja sitt byggðarlag, annaðhvort með útgerð eða finna atvinnulífi annan farveg með nýsköpun, með menningartengdri ferðaþjónustu og öðru slíku. Þessar litlu byggðir út um allt land, sem eru m.a. margar í mínu kjördæmi, munu miklu frekar hagnast á því að fá að byggja á fjölbreyttara atvinnulífi … (ÓBK: Uppboðsleið. ) — já, og hugsanlega uppboðsleið sem leiðir til þess að meiri tekjur renni í ríkiskassann sem ýtir því áfram til landshlutasamtaka eða sveitarfélaga. Við höfum allt of mörg dæmi um það hvernig þessi byggðaröskun hefur verið.

Við höfum líka skýrt umboð frá þjóðinni til að berjast fyrir tímabundnum heimildum. Meiri hluti þjóðarinnar hefur í þjóðaratkvæðagreiðslu og í mörgum skoðanakönnunum sagt afgerandi hvað hún vill í þeim efnum. Það segir vissulega í 1. gr. fiskveiðistjórnarlaga hver á auðlindina en hv. þingmenn hafa líka væntanlega heyrt efasemdaraddir og lögfræðilega loftfimleika þeirra sem í rauninni efast um það og segja jafnvel að slíkt sé ekki hægt. Það er mikilvægt að stoppa í það gat í eitt skipti fyrir öll.

Þess vegna ítreka ég að með tímabundnum samningum er bæði verið að mæta sjónarmiðum almennings og líka verið að tryggja útgerðarfyrirtækjunum miklu meiri fyrirsjáanleika og betra umhverfi.

Ég trúi heldur ekki á að réttasta verðið finnist með því að stjórnmálafólk ákveði á einhverjum lokuðum fundi gjald fyrir einstakar fisktegundir. Ég held í fyrsta lagi að það muni aldrei skapa neitt traust og það fæst ekki rétt verð fyrir verðmætin. Langeðlilegasta leiðin er að láta markaðinn ákveða verðið með einum eða öðrum hætti. Það tíðkast í rauninni í öllum öðrum atvinnugreinum, uppboð á heimildum til ákveðins tíma þar sem hægt er að reisa girðingar til að koma í veg fyrir of mikla samþjöppun, að allt leki út úr ákveðnum landshlutum og annað, það er vel hægt að gera. Við fengjum að vísu ekki hæsta mögulega verð en það er allt í lagi. Við ætlumst ekki til þess vegna þess að við viljum styrkja þriðju stoðina sem er samfélagslegi hlutinn, sjálfbærni.

Frú forseti. Frá því að þetta þing kom saman hefur krónan veikst um 13% gagnvart evrunni. Lækkun á gengi ásamt lækkun á eldsneyti mun færa útgerðinni auknar tekju, líklega upp á 20 milljarða, og gera hana í stakk búna til að bíða af sér þetta ár á meðan við náum sátt. Það er hins vegar almenningur í landinu sem mun verða fyrir skakkaföllunum þegar nauðsynjavörur hækka, þegar íbúðalánin hækka. Það er almenningur.

Ég er að verða búinn með ræðu mína. Ég hefði gjarnan viljað fara aðeins, eins og fleiri þingmenn hérna, í grein Indriða H. Þorlákssonar. Ég hvet þingmenn til að lesa hana og hvet jafnvel einhverja þingmenn til að lesa hana hér upp í heild sinni þannig að hún komist í þingtíðindin. Ég ætla að enda á klausu úr þeirri grein og gera það að lokaorðum mínum í umræðunni, með leyfi forseta:

„Þessi fyrirhugaða jólagjöf til ríkustu þjóðfélagsþegnanna er fordæmingarverð. Sú fjárhæð sem þeim er gefin árlega á næstu árum ef frumvarpið verður óbreytt að lögum er líklega álíka há og það sem til þarf til að standa undir kröfum stéttarfélaganna um hækkun lágmarkslauna.“

Kæru þingmenn. Þið hafið valið. Hvaða leið viljið þið fara til að halda frið í samfélaginu á næstu mánuðum?