149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:01]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, ásamt öðrum ber ég örugglega ábyrgð á því að atvinnulífið þróist með eðlilegum hætti og ef einhverjir telja að þetta fyrirkomulag sé ábyrgt þá erum við einfaldlega ekki sammála. Hverjir eru það sem ákveða? Auðvitað eru það stjórnmálamenn. Nú hef ég tekið eftir því að hv. þingmaður er mjög hrifinn af sínum leiðtoga, en varla er hún komin þangað að halda að hún hafi þegið vald sitt frá guði og þaðan sé líka komin ákvörðunin. Hver er það sem ákveður að það þurfi að búa útgerðinni þau skilyrði að hún geti borgað sér 23 milljarða á ári, en ekki 14 eða 12 eða 18 eða 40? Hver er það sem ákveður að þorskurinn eigi að kosta 6 kr., 10 kr., 14 kr.? Er það eitthvert líffræðilegt lögmál? Er það eitthvert eðlisfræðilögmál? Nei, allar forsendurnar eru settar hérna. Reiknireglan er eitt. Hitt er svo að setja breyturnar inn í reikniregluna og það er auðvitað ákveðið hér, hv. þingmaður. Þar hlýtur hún a.m.k. að vera sammála mér.

Og hvað varðar síðasta atriðið. Ég stend við það að það er mjög óeðlilegt í risastórri mikilvægri atvinnugrein, þar sem er mjög mikill munur á þeim sem hagnast mest og þeir sem eru í erfiðleikum í rekstri, og rosalega furðulegt að miða forsendurnar við verst reknu fyrirtækin. Það er einfaldlega miklu heilbrigðara að miða við eitthvert meðaltal, en viðurkenna um leið að kerfið sem við bjuggum til og kom ekki frá guði eða neins staðar annars staðar frá, hefur leitt til byggðaröskunar. Við þurfum að bæta byggðunum það upp án þess að í því felist einhverjar bætur eða ölmusa, heldur réttmætur arður, líka þess fólks sem býr á Vestfjörðum og Austfjörðum, svo það geti lifað á sínum stað og fengið tekjur af þeirri auðlind sem það á ásamt okkur öllum hinum.