149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:07]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það sem mér finnst reyndar merkilegt er að hv. þingmaður leggist í einhverja svona hártogun en fer ekki í grundvallarumræðuna. Hann er nú einu sinni erkiklerkur þingflokks Sjálfstæðisflokksins þegar kemur að því að tala og skrifa greinar um frjálshyggjuna og gæði markaðarins til að leiða hluti til lykta. (ÓBK: Eruð þið samstiga, þú og hv. þm. Þorgerður Katrín?) Algjörlega. Þetta er opið og eins og ég segi, ég býst við því að núverandi stjórnvöld muni bara úthluta þessu áfram eins. En hins vegar er tillagan þannig að ef við náum sátt á næstu vikum og mánuðum um að það ætti að fara með þetta einhvern veginn öðruvísi — í byggðamál, á uppboð — þá opnum við leiðina fyrir því um leið og við festum í sessi tímabundna samninga sem skipta alveg gríðarlega miklu máli. En þar er ég ekki viss um að ég og hv. þingmaður séum sammála vegna þess að ég held að við deilum ekki alveg skoðun á því hver raunverulega á auðlindina. Það hefur birst hjá honum margoft.

Við leggjum hins vegar fyrst fram frávísunartillögu og við leggjum höfuðáherslu á að hún verði samþykkt, vegna þess að í því felst þá a.m.k. sú von að ríkisstjórnin geti í þessu máli farið eftir eigin stjórnarsáttmála þar sem talað er beinlínis um það að allar meiri háttar breytingar á kerfi sem þarf að vera sátt um til framtíðar eigi að nást í samstöðu. Það getur ekki átt bara við til þess að gera Vinstri grænum léttbærara að kyngja skattatillögum Sjálfstæðisflokksins. Það hlýtur að gilda um öll mál, hv. þingmaður.