149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:11]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Við flutningsmenn breytingartillögunnar erum fullkomlega sammála, (Gripið fram í.) þó að við tjáum okkur kannski með misjafnlega skýrum hætti. Það getur vel verið og það getur vel verið að það sé mín sök. En það gerir þó hins vegar tiltölulega lítinn skaða í samfélaginu þó að stjórnarandstaðan sé ósamstæð. Það er hins vegar bullandi vandamál fyrir stöðugleika í landinu að hér skuli vera lagðar fram tvær samgönguáætlanir af stjórnarliðum, að það skuli vera ágreiningur í hverju málinu á fætur öðru og þeir komi engu áfram. (Gripið fram í.)

Hv. þingmaður gerði tilraun til þess að verða ögn heimspekilegur og vissulega er það rétt að skatthlutfallið er það sama. Ég talaði hins vegar um það að grein sem ræður við að borga sér 23 milljarða kr. arð ætti að vera meira aflögufær. Ég hef ekki talað um neina prósentu. Það er einmitt umræða sem menn forðast í þessu frumvarpi og það er það sem við ættum að gera. Það er það sem Indriði Þorláksson hefur talað um að við ættum að gera. Ég óttast þá umræðu ekki, (Forseti hringir.) við vorum nú báðir á félagsfræðibraut, erum álíka sleipir í stærðfræði, en þetta kunnum við báðir.