149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:12]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Enn syrtir í álinn varðandi stærðfræðiþekkingu, því að sá sem hér stendur valdi braut í menntaskóla eftir því hvar var minnst stærðfræði og því er ekki von á góðu hjá okkur. En það er ágætt að fá að heyra hv. þingmann ræða aðeins þessa breytingartillögu sína. Það hefur komið skýrt fram að hún virðist vera frekar óskýr og margir misskilja hana, þannig að það er ágætt. Ég er í það minnsta þannig gerður að ég vil vita um hvað ég er að ræða og mér hefur ekki alveg enn tekist að komast til botns í því.

Mér finnst pínulítið sérstakt að hlusta á hv. þingmann ræða alltaf um þau fjölmörgu sjávarútvegsfyrirtæki sem berjast í bökkum, af fjölmörgum ástæðum, sem verst reknu fyrirtækin. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Er hann á þeirri skoðun að þau fyrirtæki sem standa illa, sjávarútvegsfyrirtæki, og berjast í bökkum, og í ýmsum skoðunum, séu öll verst reknu fyrirtækin eins og hann ítrekaði margoft í ræðu sinni?

Mig langar svo að nýta tækifærið, virðulegur forseti, til að spyrja út í þessa breytingartillögu til að skilja hana betur. Hvaða tekjur eru það sem eiga að innheimtast í veiðigjöldum og eiga að fjármagna umræddan sjóð sem hér er? Hvaða tekjur eru það? Hvaða veiðigjöld eru það sem eiga að standa undir þessu? Getur hv. þingmaður útskýrt það fyrir mér (Gripið fram í.) hvaða tekjur það eru sem eiga að standa undir sjóðnum, uppbyggingarsjóði landshlutanna?