149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:35]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að spyrja hann frekar út í það sem mér skildist hann vera að segja. Ég skildi hv. þingmann þannig að veiðigjöldin gætu orðið til þess að vinnslan færi úr landi. Ég heyrði því reyndar kastað fram á fundi sem ég sat á í sjávarútvegsráðuneytinu þar sem hæstv. sjávarútvegsráðherra útskýrði frumvarpið sem við ræðum hér fyrir hagsmunaaðilum og þá sögðu einhverjir tveir: Jæja, það verður að passa að vinnslan fari ekki bara úr landi.

En er það ekki svo, hv. þingmaður, að veiðigjaldið leggst eingöngu á útgerðina, á veiðarnar, og útgerðin starfar ekki í alþjóðlegri samkeppni heldur er hún vernduð frá henni með lögum? Gjaldið leggst ekki á fiskvinnslu og söluaðila fiskafurða og veldur engum kostnaðarauka hjá þeim. Er það ekki frekar þannig að þegar gámafiskur fer í auknum mæli úr landi eða þegar fiskur er fluttur úr landi óunninn er það vegna þess að krónan er sterk og vinnuaflið ódýrara í útlöndum, en þegar krónan veikist dregur úr útflutningi af því að vinnslan verður hagkvæmari hér?

Er það ekki rétt skilið hjá mér að veiðigjaldið hafi ekkert með það að gera, en hins vegar hafi krónan allt með það að gera?