149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:40]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að við séum samt sammála um það, ég og hv. þingmaður, að íslenskir útgerðarmenn sem stunda veiðar eru ekki í alþjóðlegri samkeppni. Það er vinnslan sem er í alþjóðlegri samkeppni og þar skiptir krónan máli. Ef ég skildi hv. þingmann rétt viðurkenndi hann að það gæti reiknast inn í kostnaðinn að einhverju leyti, enda er það augljóst. Það kemur líka við budduna okkar þegar við rekum heimilið og auðvitað útgerðina, nema hjá þeim á öfugan hátt.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvernig hann sjái fyrir sér, ef þetta frumvarp verður að lögum og við breytum ekki fiskveiðistjórnarkerfinu, nýliðun í kerfinu.

Það er þannig að þeir sem vilja fara út í útgerð þurfa annaðhvort að kaupa skip með kvóta dýru verði, eða leigja af þeim sem fá úthlutað kvóta frá ríkinu, líka dýru verði. Núna er verið að leigja kílóið af þorski samkvæmt Fiskistofu á 175 kr. Þetta frumvarp gerir ráð fyrir rétt tæpum 14 kr. á kílóið. Það er himinn og haf þarna á milli. Það er auðvitað rétt að þetta er jaðarverð, af því að það er ekki mikið sem verið er að bjóða út í einu. Það væri hægt að ná lægra verði ef stærri hluti væri boðinn út í einu, eins og t.d. í Færeyjum. Færeyingar fengu 40 kr. á kílóið af þorski í sínu útboði. Þetta er alla vega ójafn leikur. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér nýliðun í greininni?