149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:53]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Mér finnst afar mikilvægt að frumvarpinu sem við ræðum hér verði vísað frá svo ræða megi það betur og freista þess að ná meiri sátt um málið. Það er ekkert hættulegt. Það eina sem gerist, ef við látum núgildandi lög gilda eitt ár í til viðbótar, er að útgerðin greiðir á milli 11 og 12 milljarða kr. í veiðigjald en ekki 7 eins og meiri hlutinn leggur til. Útgerðin ræður alveg við það, enda er olíuverð að lækka og krónan að veikjast.

Frumvarpið ber nefnilega í sér miklu meiri breytingar en hæstv. sjávarútvegsráðherra og hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans vilja vera láta. Skýrt dæmi um kúvendingu kemur fram í markmiðssetningu frumvarpsins. Í stað orðalags í markmiðsgrein í núgildandi lögum, sem er svona, með leyfi forseta: „til að tryggja þjóðinni í heild hlutdeild í þeim arði sem nýting sjávarauðlinda skapar“, kemur í frumvarpinu sem við ræðum nú: „til að tryggja þjóðinni í heild beina og sýnilega hlutdeild í afkomu við veiðar á nytjastofnum sjávar.“ Þegar nánar er skoðað er hér um mikla breytingu á markmiðum með innheimtu veiðigjalda að ræða. Ekki á sem sagt lengur að tryggja þjóðinni hlutdeild í arðinum heldur bara hlutdeild sem er bein og sýnileg. Þetta er grundvallarbreyting og umbylting á þeirri meginhugsun sem var að baki laganna eins og þau voru samþykkt 2012, þar sem hugmyndin var sanngjörn skipting á auðlindarentunni á milli þjóðarinnar og þeirra sem fá sérleyfi gegn gjaldi til að nýta auðlindina.

Í umræðunum um þetta frumvarp tala hæstv. sjávarútvegsráðherra og hv. stjórnarþingmenn um að hér sé um litla breytingu að ræða og hvorki hækkun né lækkun á veiðigjöldum heldur sé verið að reikna veiðigjöld með nýrri gögnum, þannig að veiðigjöld fyrir árið 2019 verði reiknuð eftir upplýsingum frá árinu 2017 en ekki 2016 eins og núgildandi lög gera ráð fyrir, og að hlutfallið, 33% af auðlindarentunni sem gangi til þjóðarinnar, sé bara eins og alltaf. Jafnvel er látið að því liggja að það sé hlutfall sem vinstri stjórnin hafi komið á og núverandi stjórn vilji viðhalda. Segja megi að þetta hlutfall hafi verið samþykkt á Alþingi af hinum ýmsu ríkisstjórnum á árunum 2009–2018.

En þetta er blekking og leikur að tölum. Mér finnst Indriði H. Þorláksson orða þetta mjög vel í grein sem birtist í Kjarnanum í dag en hann segir, með leyfi forseta:

„Með þessu er ranglega verið að segja að frumvarpið feli í sér óbreytt ástand og gefið í skyn að það sé eðlilegt. Það tímabil sem valið er er þó fjarri því að vera eðlilegt og enn síður verður sagt að álagning veiðigjalda endurspegli einhverja sátt um fjárhæð þeirra. Fyrsti hluti tímabilsins eru ár þegar veiðigjald var ekki lagt á sem auðlindagjald heldur ákveðið af gæslumönnum útgerðar í ráðuneytinu og náði því aldrei að vera nema lítill hluti þess kostnaðar sem ríkissjóður hefur af sjávarútvegi. Þá koma tvö ár þar sem veiðigjöld voru vissulega hugsuð sem auðlindagjöld en höfðu ekki náð því marki sem stefnt var að í þágildandi lögum. Síðasti hluti tímabilsins eru ár þar sem hagsmunir útgerðareigenda hafi aftur náð yfirhöndinni og mulið gjaldið niður í lítið eitt.“

Frú forseti. Í greinargerð með frumvarpinu er gripið til þess ráðs að reyna að villa um fyrir almenningi með slíkum talnaleikjum. Svo er það nú þannig að það er stofninn sem hlutfallið er reiknað af sem skiptir öllu máli. 33% af litlu gerir eitthvað ósköp smátt, svo dæmi sé tekið. Önnur villandi og beinlínis hallærisleg framsetning er þegar höfundar veiðigjaldafrumvarpsins víkja sérstaklega að jafnréttismálum og kynskiptum vinnumarkaði til að rökstyðja að ekki eigi að vega hagnað af fiskvinnslu við ákvörðun veiðigjalds. Þetta stendur í greinargerð frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Störf í landvinnslu hafa jafnan verið að meiri hluta á hendi kvenna. Þá má geta þess að konur hafa á síðustu árum verið mun sýnilegri í sjávarútvegi en áður. Nefna má að með frumvarpi þessu er ekki lagt til að vinnsla á sjávarafla verði hluti af reiknistofni veiðigjalds sem myndi fremur, samkvæmt þessu, koma við störf kvenna en karla.“

Svo mörg voru þau orð.

En, frú forseti, fiskvinnslan borgar ekki veiðigjöld og hefur aldrei gert. Hækkun eða lækkun veiðigjalda hefur engin áhrif á rekstur fiskvinnslu. Eingöngu veitt magn af fiski hefur áhrif á framboð af fiski til fiskvinnslunnar og á fiskverð, því að verðmyndun á veiddum fiski er frjáls. Réttlát veiðigjöld hafa ekki áhrif á hve margir fiskar eru dregnir úr sjó og því ekki á fiskverð til fiskvinnslu heldur.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra lagði áherslu á það í kynningum á frumvarpinu að það væru veiðarnar sem ættu að greiða veiðigjöldin, ekki vinnslan. Með þessari villandi framsetningu er verið að blekkja fólk því vinnslan hefur aldrei greitt veiðigjöld. Hins vegar hefur hagnaður fiskvinnslunnar verið veginn inn í ákvörðun veiðigjalds. Það er gert m.a. til að mynda ekki hvata fyrir útgerðarfyrirtækin til að færa hagnaðinn frekar yfir á vinnsluna og hafa þannig áhrif á að veiðigjöldin lækki. Í veiðigjaldafrumvarpinu er horfið frá þessu. Þá verður þessi hvati raunverulegur og þrýstingur gæti myndast frá öllum útgerðum að þær sem hafa tækifæri til færi hagnaðinn í auknum mæli á vinnsluna og því fylgir um leið lægri veiðigjöld og lægri laun til sjómanna. Og það er ótrúlega hallærislegt að beita kynjarökum með þessum villandi hætti til að réttlæta útreikning á veiðigjöldum. Ég leyfi mér að fullyrða að svona gera bara þeir sem vilja með öllum ráðum verja ríka sérhagsmuni.

Forseti. Um sama leyti og sjávarútvegsráðherra lagði fram frumvarp um lækkun veiðigjalda birtu Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi samanburð veiðigjalda á Íslandi og í Færeyjum undir yfirskriftinni: „Hvað er að frétta af uppboðum í Færeyjum?“ Færeyingar hafa sem kunnugt er hafið útboð á hluta kvótans. Niðurstaða Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi var sú að meðalgjaldið reyndist hærra á Íslandi í ár eða um 9,3 kr. á kíló hér samanborið við 6,9 kr. á kíló í Færeyjum.

Nú grunar mig að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi séu að fela sannleikann í meðaltölum. Stærsti hluti kvóta Færeyinga er nefnilega í uppsjávarfiski en á Íslandi er botnfiskur mun stærri hluti. Kíló af botnfiski er að jafnaði mun verðmætara og ber hann því mun hærra veiðigjald. Sem dæmi er veiðigjald á þorski 19 sinnum hærra en á kolmunna hér á landi.

Til að skilja þetta og vera viss hef ég ítrekað beðið Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi um að senda mér eða birta útreikninga sína niður á tegundir en ekki birta bara eitt meðaltal. Ég hef ekkert svar fengið og mig grunar að samtökin ætli að bíða eftir því að frumvarpið um veiðigjöld verði samþykkt áður en þessir útreikningar birtast. Vonandi reynist sá grunur minn ekki á rökum reistur en ég bíð enn eftir svari.

Samkvæmt opinberum tölum frá útboðum Færeyinga er þetta svona: Færeyingar buðu út kvóta í apríl, maí, júní og ágúst á þessu ári, alls 15% af kvótanum í Færeyjum. Niðurstaðan varð þessi: Kíló af þorski fór úr 38,7 ísl. kr. Það er 180% hærra verð en gert er ráð fyrir í frumvarpinu sem við ræðum hér. Reyndar er sá afli veiddur í Barentshafi þar sem við gerum ekki ráð fyrir neinu veiðigjaldi, ekki heldur í þessu frumvarpi. Veiðigjöldin hér miðast við Íslandsmið eða heimamiðin. Kílóið á kolmunna fór á útboði Færeyinga á 8,8 kr., en frumvarp hæstv. sjávarútvegsráðherra gerir ráð fyrir að ríkið innheimti 57 aura. Þarna er munurinn heldur betur mikill eða 1.444%. Kílóið af makríl fór á útboði Færeyinga á 89,9 kr. en stjórnarmeirihlutinn leggur til að Íslendingar innheimti 3 kr. og 55 aura. Munurinn er 2.432%. Þetta er svo mikill munur, forseti, að það er algjörlega óásættanlegt að láta hann liggja óskýrðan.

Svo virðist sem hæstv. ráðherrar og hv. stjórnarþingmenn þori ekki að tala um þennan mikla mun á því sem rennur í sjóð Færeyinga og svo í okkar ríkissjóð. Enginn talar um það að Grænlendingar séu líka að undirbúa útboð á aflaheimildum og að Norðmenn séu að taka ákveðin skref í þá átt þessa dagana.

Við megum aldrei gleyma þessu: Þjóðin á kvótann. Það stendur í lögum og það hefur Hæstiréttur staðfesti margsinnis. Við getum breytt kerfinu þegar við viljum. Það þarf einungis ákvörðun Alþingis til að gera það.

Ég held að það muni aldrei skapast sátt um fiskveiðiauðlindina okkar fyrr en við bjóðum hluta kvótans út, fyrst og fremst í því augnamiði að jafna aðgang að sjávarauðlindinni og auðvelda nýliðun og að tímabundnir samningar verði gerðir við þá sem fá sérleyfi til að nýta auðlindina.

Á tíma ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur unnu Samfylkingin og VG góða vinnu í auðlindamálum og ein af niðurstöðunum sem birt var í skýrslu auðlindastefnunefndar frá þeim tíma var þessi, með leyfi forseta:

„Samhliða útgáfu sérleyfa til tiltekins tíma og innheimtu umframarðs af auðlindinni þarf jafnframt markað með sérleyfi til nýtingar; bæði frummarkað þar sem ríkið úthlutar sérleyfum á grundvelli uppboða og einnig eftirmarkað, en frumvarp til laga um stjórn fiskveiða gerir ráð fyrir að öll viðskipti með sérleyfi fari fram í gegnum kvótaþing.“

Þarna er verið að vísa í frumvarp sem þá var til umræðu. Ég held áfram, með leyfi forseta:

„Það er mikilvæg ráðstöfun, ekki síst ef dregið verður úr takmörkunum á viðskiptum með sérleyfi. Markaðurinn gegnir því mikilvæga tvíþætta hlutverki að tryggja annars vegar aðgengi að greininni í samræmi við forsenduna um hlutlæga og gagnsæja úthlutun á grundvelli jafnræðis og hins vegar að birta mat markaðarins sjálfs á umfangi auðlindarentunnar sem sérleyfin skapa.“

Þetta var nú sameiginlega niðurstaða okkar í Samfylkingunni og Vinstri grænum á sínum tíma.

Herra forseti. Ég ætla að fara hér stuttlega yfir stefnu Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum og síðan yfir stefnu VG í málinu. Skráð stefna Samfylkingarinnar er svona, með leyfi forseta:

„Íslenska þjóðin á að fá fullt auðlindagjald í sjávarútvegi. Góð leið til þess er að bjóða út kvóta til þess að tryggja almenningi fullt gjald af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Úthluta á aflaheimildum á jafnræðisgrundvelli til hóflegs tíma með gagnsæjum hætti. Nýir fiskstofnar og aukning á kvóta eiga strax að fara í útboð.

Samfylkingin leggur áherslu á:

heilbrigðar leikreglur um framtíðarskipan fiskveiðistjórnunar á Íslandi með atvinnufrelsi, jafnræði, byggðasjónarmið og nýliðunarmöguleika að leiðarljósi,

vinna með öllum ráðum gegn mengun hafsins og súrnun sjávar,

að efla umræðu um þá möguleika sem opnast með aðild að ESB hvað varðar arðsama vinnslu sjávarafurða á Íslandi. Með aðild fæst fullt tollfrelsi fyrir allar sjávarafurðir á Evrópumarkað,

taka strandveiðikerfið til endurskoðunar og festa það í sessi.“

Þetta var skráð stefna Samfylkingarinnar. En þetta kemur fram í stefnu VG um málið, með leyfi forseta:

„… þrepaskipting milli ólíkra útgerðarflokka og afkomu eins og við viljum gera í skattkerfinu, þar sem ólíku saman að jafna hagkvæmni og hagnaði stórútgerðarinnar og minni útgerða. Verðmyndun á afla mun því óhjákvæmilega taka mið af veiðigjaldi, en þeir sem hyggjast byggja upp greinina og borga sjómönnum góð laun, munu öðlast samkeppnisforskot á aðra. VG vill að arður og atvinna af sjávarútvegi dreifist sem best um samfélagið en lendi ekki í höndum fárra útgerðarrisa sem hugsa bara um stundargróða og láta sér samfélagslega ábyrgð í léttu rúmi liggja (LRM: Heyr, heyr.) eins og mýmörg dæmi sanna …“

Og fyrst hv. formaður atvinnuveganefndar kallar: „Heyr, heyr“ væri nú ágætt að spyrja þeirrar spurningar: Hvers vegna er þá svona vel farið með stórútgerðina í þessum tillögum sem hv. þingmaður hefur borið hér upp? Það hefði verið hægur vandi að gefa afslátt til smærri útgerða án þess að láta hann ganga yfir þá stóru líka.(Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Frú forseti. Tíminn líður svo hratt og ég á svo mikið eftir af þessari ræðu. En þá er nú gott að ég get komið aftur og aftur í 2. umr. til að ræða málið.

Ég held áfram að vitna í skráða stefnu VG. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hver útgerð býr að kvóta sem mælt er fyrir um af ráðherra sjávarútvegsmála, byggt á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. VG vill að kvótaúthlutun í núverandi mynd verði aflögð í skrefum og kvóta endurútdeilt á grundvelli hagsmuna samfélagsins, byggða í landinu og atvinnu. (Gripið fram í.) VG leggur sérstaka áherslu á eflingu strandveiða. Endurúthlutun felst annars vegar í tímabundinni ráðstöfun leyfa (ÞKG: Hvað segirðu?) og skal að hluta vera bundin útgerðarformum og veiðiaðferðum, og hins vegar í uppboði, að hluta bundin svæðum landsins og sveitarfélögum og þeim aðilum boðið að skilgreina leiðir til úthlutunar.“

Síðan er haldið áfram að ræða um þessi grundvallaratriði sem eru tímabundnir samningar, útboð á aflaheimildum og að sveitarfélögin og byggðirnar í landinu fái sérstaklega að njóta arðsins.

Þetta rímar mjög vel við það sem við höfum verið að leggja til og ég segi fyrir mig, frú forseti: Ef ríkisstjórnin hefði sagt: Við ætlum að fara leið VG í sjávarútvegsmálum, hvað segir þið um það? þá hefði ég sagt: Já, ég er til í það um leið. Það er mikill samhljómur með stefnu flokkanna og það eru ákveðin skref sem VG vill taka sem ég er innilega sammála. Og í stefnu beggja flokkanna er talað um útboð, enda er útboð meginregla þegar hið opinbera úthlutar réttindum eða verkefnum til fyrirtækja. Þetta á við hvort sem er um að ræða stór framkvæmdaverkefni, sérleyfi í samgöngum, útblástursheimildir eða tíðnisvið. Forréttindaveiting sú sem tíðkast í sjávarútvegi er undantekning. Hún gengur gegn almennum sanngirnisviðhorfum og sjónarmiðum jafnaðarstefnunnar. En nú ber svo við að þegar Samfylkingin, Viðreisn og Píratar leggja fram breytingartillögu til vara við frumvarpið, ef frávísunartillagan skyldi verða felld, þá segir formaður atvinnuveganefndar að þær lýsi frjálshyggju og við séum að leggja til útboð á aflaheimildum. En jafnvel þó að allir þessir flokkar vilji, eins og VG, bjóða út kvótann með einum eða öðrum hætti, ákváðum við, þar sem ekki er meiri hluti fyrir þeirri hugmynd í þingsal, að leggja bara til að gerðir yrðu tímabundnir samningar því að einmitt það hefur meiri hluti hv. þingmanna lagt áherslu á að gera og hefur margoft verið rætt í þessum þingsal, fram og til baka. Og að veiðigjaldið renni til sveitarfélaganna til að styrkja landshlutana hefur einnig meiri hluti þingmanna lagt til á einhverjum tímapunkti.

Lækkun á milli ára á veiðigjöldum verður tæpir 4 milljarðar, verði frumvarpið að lögum. Formaður atvinnuveganefndar kallar það frjálshyggju að vilja tímabundna samninga og endurúthluta eða bjóða út 1/20 af kvótanum á hverju ári til að freista þess að fá hærra verð og gefa möguleika á nýliðun, leyfa landshlutunum sem borið hafa kostnaðinn af framsali og hagræðingu í greininni að njóta arðsins með því að styrkja sóknaráætlanir landshluta. En hún kallar það vinstri pólitík að hafa veiðigjaldið sem allra lægst og færa þeim sem fyrir eru á fleti kvótann um ókomna tíð. Það er hins vegar í mínum huga últra hægri stefna að vilja láta forréttindahóp hafa kvótann ár eftir ár fyrir slikk og koma um leið í veg fyrir nýliðun.

Við skulum huga að því, frú forseti, hvernig nýliðun fer fram og hvernig stjórnarmeirihlutinn leggur til að hún verði í þeirri ríkisstjórnartíð. Jú, nýliðarnir verða að leigja kvóta af þeim útgerðum sem ríkið hefur látið fá þá — á mjög dýru verði. Þannig er það, frú forseti. En ég mun setja mig aftur á mælendaskrá því að ég er ekki hálfnuð með ræðuna.